30.9.2008 21:30

Þriðjudagur, 30. 09. 08.

Í dag setti ég Ólaf Kristófer Ólafsson, sýslumann Snæfellinga, lögreglustjóra á Suðurnesjum til 1. janúar 2009, Jón Bjartmarz aðstoðarlögreglustjóra og Halldór Halldórsson var settur fjármálastjóri embættisins. Allt eru þetta menn með mikla og góða reynslu hver á sínu sviði. Ég stefni að því að auglýsa síðan embættið laust til umsóknar frá 1. janúar 2009.

Jón Ásgeir Jóhannesson kyrjar sama, gamla óvildar- og samsærissönginn um Davíð Oddsson, þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma í veg fyrir, að Glitnir sigli í þrot, eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson, bankaráðsformaður, gekk á fund Davíðs í Seðlabanka Íslands og skýrði honum frá því, að bankinn gæti ekki einn og óstuddur tekist á við endurfjármögnunarvanda.

Trúir því einhver, að vandi Glitnis sé Davíð Oddssyni eða ríkisstjórninni að kenna? Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, gekk meira að segja ekki svo langt að segja það í Kastljósi kvöldsins. Skrýtið, að hún skyldi ekki spurð, hvað Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi verið að gera í húsakynnum Seðlabanka Íslands nóttina, sem ákveðið var að bjarga Glitni.

Jón Ásgeir var í hátíðarviðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld og lagði Sindri Sindrason fyrir hann spurningarnar, en eins og Egill Helgason segir, var Sindri til skamms tíma talsmaður Jóns Ásgeirs.

Þórhallur S. Gunnarsson, stjórnandi Kastljóss, skýrði frá því, að Jón Ásgeir hefði neitað að koma í þáttinn og meira að segja bannað fréttastofu RÚV að viðtal hennar við sig yrði sýnt í þættinum. Hvað skyldi ritstjórnarvaldið ná langt út fyrir Baugsmiðlana?