28.9.2008 17:36

Sunnudagur, 28. 09. 08.

Morgunblaðið birtir viðtal við Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra, í dag. Þar er margt kúnstugt gefið til kynna eða hálfsagt. Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra þykir miður, hvaða hátt Jóhann hefur á að kveðja starfsbræður sína, en óskar honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi, eins og segir hér. Þá hefur verið send yfirlýsing í nafni Lögreglustjórafélags Íslands. Henni lýkur á þessum orðum:

„Lögreglustjórafélagið harmar því þær illskeyttu og persónulegu árásir sem ráðherra og einstakir starfsmenn lögreglukerfisins hafa þurft að sæta og kallar þess í stað á málefnalegar umræður um starfsemi lögreglunnar og skipulag hennar.“

Kosið var til þings Austurríkis í dag, en boðað var til kosninganna með skömmum fyrirvara, þegar upp úr sauð í samsteypustjórn stóru flokkanna í landinu. Jafnaðarmenn fóru með stjórnarforystu en stjórnin sprakk ekki síst vegna þess, að forystumenn flokksins sendu opið bréf til útbreiddasta blaðs landsins Kronen Zeitung eftir nei-niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Lissabon-sáttmálann á Írlandi og sögðust vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um sáttmálann í Austurríki, ef á honum yrði hin minnsta breyting vegna afstöðu Íra. Með því tryggðu þau flokki sínum stuðning blaðsins, sem nær til þriggja milljóna lesenda eða 43% Austurríkismanna.

Kronen Zeitung studdi á sínum tíma aðild Austurríkis að Evrópusambandinu en Hans Dichand, 87 ára eigandi blaðsins, hefur skipt um skoðun á sambandinu. Sagt er, að þar ráði mestu sú krafa Brusselvaldsins, að orðið Marmelade sé afmáð og þess í stað notað orðið Konfitüre. Hans Dichand mótmælti þessu „diktati“ frá Brussel á forsíðu blaðs síns og skipaði sér síðan í forystu þeirra, sem vilja tryggja „fullveldi“ Austurríkis og nýtur sú afstaða stuðnings meirihluta þjóðarinnar.

Fyrstu tölur í Austurríki sýna, að jafnaðarmenn halda forystu meðal flokka, fyrrverandi samstarfsflokkur þeirra, Þjóðarflokkurinn, er næststærstur en flokkur yst til hægri, Bandalag um framtíð Austurríkis, jók fylgi sitt. Heinz-Christian Strache, formaður flokksins, hefur farið mikinn gegn „einræðisöflum“ í Brussel og myntinni, sem hann kallar „teuro“, en þar tengir hann saman orðin euro og „teuer“, það er dýr á þýsku. 

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur áhyggjur af niðurstöðu austurrísku kosninganna. Spurning hvort þau hafa áhrif á kosningarbaráttunni um sæti í öryggisráði SÞ, þar sem við keppum um sæti við Austurríkismenn. Um árið setti Evrópusambandið Austurríki í skammarkrókinn vegna mikils fylgis kjósenda við flokka yst til hægri.