24.9.2008 21:07

Miðvikudagur, 24. 09. 08.

Fór fyrir hádegi í Háskólann á Bifröst, þar sem ég flutti fyrirlestur klukkan 13.00 um forvirkar rannsóknarheimildir og rakti efnisþætti slíkra heimilda og stiklaði á stóru um umræður um málið hér á landi. Katrín Theodórsdóttir lögmaður var einskonar andmælandi á fundinum en ég sagðist sammála sjónarmiðum hennar. Jón Ólafsson prófessor stjórnaði umræðum eftir ræður okkar og lögðu fjölmargir fram spurningar til mín.

Eftir stutta viðdvöl í borginni hélt ég austur í Fljótshlíð til að búa mig undir fund með Sýslumannafélagi Íslands á morgun, þar sem ég mun gera grein fyrir stöðu mála varðandi endurskoðun lögreglulaga. Eins og við er að búast, eru töluverðar umræður um lögreglumál á opinberum vettvangi og tengjast þær meðal annars því, að nýlega rann út frestur umsagnaraðila um minnisblað mitt um næstu breytingar á lögreglulögunum.

Við komuna austur settist ég við tölvuna og svaraði spurningum fjölmiðlamanna eftir fund Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, með starfsmönnum sínum klukkan 17.00 í dag í safnaðarheimilinu í Keflavík, þar sem hann tilkynnti þeim, að hann mundi láta af störfum 1. október nk. Þrír náustu samstarfsmenn hans, sem farið hafa með fjármála- og starfsmannastjórn láta einnig af störfum.

Jóhann telur það fyrirslátt, þegar ég segi ákvörðun mína um að auglýsa embættið á Suðurnesjum byggða á því mati, að um allt annað embætti sé að ræða en skipað var í fyrir fimm árum. Engum ætti þó að vera betur ljóst en Jóhanni, hvernig embættið hefur breyst, eftir að sýslumannsembættið á Keflavíurflugvell varð nafnið tómt og síðan aflagt, enda arfleifð úr kalda stríðinu. Launakjör embættismannsins eru til dæmis allt önnur og þó ekki væri nema vegna þeirra er æskilegt að hafa alveg hreint borð, sem fæst með auglýsingu. Ef Jóhann veit meira um það en ég, hvers vegna ég tók þessa ákvörðun, væri gott að hann upplýsti mig og aðra um það.

Jóhann R. Benediktsson hefur aldrei gagnrýnt stefnumörkun mína í lögeglumálum, hvorki í einkasamtölum né á fundum. Hann hefur til dæmis lýst sérstökum áhuga á forvirkum rannsóknarheimildum og vann í þeim anda sem sýslumaður á Keflavíkurflugvelli.

Ég kveð Jóhann og samstarfsmenn hans með þökk fyrir samfylgdina síðan 1. janúar 2007 og óska þeim velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Ég sé á visir.is, að Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins hér í Suðurkjördæmi, ætlar að gera afsögn Jóhanns að pólitísku þrætuefni. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Við ákvörðun mína fór ég að lögum og verður henni ekki breytt, hvorki af Bjarna né öðrum, þótt menn séu henni ekki sammála. Ég legg til, að Bjarni leggist frekar á árar með okkur, sem róum lífróður til að halda Suðurnesjaembættinu á réttum kili, en hann eyði ekki tímanum í að deila, aðeins til að stunda þrætulist.