22.9.2008 18:49

Mánudagur, 22. 09. 08.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í morgun er vikið að þeirri ákvörðun, að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skuli auglýst laust til umsóknar frá 1. apríl 2007. Ég hef greint frá efnislegum forsendum ákvörðunarinnar hér á síðunni og í fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu. Þá hef ég einnig skýrt frá því, að á sínum tíma hafi fjármálaráðuneyti komist að þeirri niðurstöðu við athugun á tillögu frá mér, að ekki skyldi reglulega auglýsa embætti. Virða ráðherrar þá verklagsreglu, enda á fjármálaráðuneyti síðasta orð um starfsmannamál ríkisins.

Þótt allt þetta liggi fyrir segir í Staksteinum í dag:

„Gera verður ráð fyrir að ráðherrann (það er dóms- og kirkjumálaráðherra) verði sjálfum sér samkvæmur og að ákvörðunin um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum sé upphafið að því að embætti forstöðumanna stofnana sem undir dómsmálaráðuneytið heyra verði auglýst reglulega.“

Þegar ég skrifaði Staksteina, var lögð rík áhersla á, að höfundar væru vel að sér um það, sem birst hefði í Morgunblaðinu. Skyldi sú regla ekki lengur við lýði?

Til glöggvunar skal tekið fram, að fjármálaráðuneytið kynnti afstöðu sína í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar, sem er dagsett 30. mars, 2000. Starfsmannalögin, sem ráðuneytið túlkar á þennan veg, er frá 1996.

Evrópunefnd undir formennsku minni ræddi við Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB, í byrjun júní 2005. Þá sagði hann hið sama og við Evrópuvaktnefndina, sem er í Brussel núna: Það tekur engan tíma fyrir Ísland að gerast aðili að ESB. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópunefndarinnar. Hvernig dettur nokkrum manni í hug, að stækkunarstjórinn segi annað, en evra án aðildar komi ekki til greina? Það þarf ekki að hitta hann til að vita svarið. Aðrar leiðir eru þó fyrir hendi. Um það þarf ekki að deila.