21.9.2008 18:44

Sunnudagur, 21. 09. 08.

Réttað var í Fljótshlíðinni í morgun. Veðrið var gott þrátt fyrir einstakar hryðjur. Ég komst ekki í leitirnar í gær, en það voru hríðarbyljir til fjalla. Ég dró eina af þremur ám mínum og eitt af sjö lömbum. Vonandi skilar hópurinn sér af fjalli, en mig grunar, að þrílemban, leiti aftur niður í Austur-Landeyjar. Hún var þar í góðu yfirlæti sl. vetur að Vorsabæ í A-Landeyjum, en við héldum hana enn á fjalli.

Í Bændablaðinu 9. september er sagt frá heimsókn til hjónanna að Vorsabæ þeirra Kristínar Margrétar og Björgvins. Spurt er um eftirminnilegasta atvikið við bústörfin og Björgvin svarar: „Í vor, þegar Magga mismarkaði lömbin hans Björns ráðherra með okkar marki.“ Ég vil þakka þeim hjónum, hve vel þau fóru með ána og lömbin, sem að sjálfsögðu var skilað í Fljótshlíðina.

Í kvöld fórum við í Salinn, þar sem haldið var upp á afmæli Atla Heimis Sveinssonar tónskálds með listrænum glæsibrag.

Mér var sagt, að Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði verið í Silfri Egils og bæði vitað, hvernig ætti að reka seðlabanka og lögreglu - og farið létt með það. Árni Páll sagði á sínum tíma frá því, að hann hefði verið hleraður, þegar hann starfaði í utanríkisráðuneytinu. Menn hafa líklega viljað fræðast um, hvernig reka ætti ráðuneytið.