15.9.2008 19:16

Mánudagur, 15. 09. 08.

Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins skrifar leiðara í blað sitt í dag undir fyrirsögninni: Dómsmálaráðherra skuldar svör. Byggist leiðarinn á því, að lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað síðan 1990 og er sú tala fundin, án þess að telja með sérsveitarmennina, sem starfa á þessu svæði eins og annars staðar, eða þá lögreglumenn, sem starfa í Fjarskipatmiðstöð lögreglunnar, en báðir þessir hópar lögreglumanna starfa nú undir stjórn embættis ríkislögreglustjóra, sem ekki var árið 1990.  Þeir eru að sjálfsögðu að sinna verkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Væru þeir taldir á annan veg, hefði orðið fjölgun á lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu síðan 1990. Að fá þá útkomu þjónar ekki tilgangi Jóns Kaldals, sem skrifar leiðara sinn til að komast að þeirri niðurstöðu, að ég sé ekki að sinna starfi mínu á viðunandi hátt miðað við tölurnar, sem hann kýs að nota. Í sama dúr og af svipaðri sanngirni hefur hann skrifað um fleiri ráðherra Sjálfstæðisflokksins, enda er honum greinilega ekki kappsmál að hlutur okkar sé góður.

Ég er sammála Jóni Kaldal, að það er eitthvað bogið við þróun löggæslumála í landinu, sé hún skoðuð með gleraugum hans. Þau gefa hins vegar ekki rétta mynd af ástandinu. Jón Kaldal lítur auk þess fram hjá hinum mikla og góða árangri, sem náðst hefur á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru dæmi:

Umferðarslysum í Reykjavík hefur fækkað um 44,9% á fyrri hluta þessa árs samanborið við meðaltal sama tímabils 2006 og 2007 (úr 314 umferðarslysum í 173).

Innbrotum í Reykjavík hefur fækkað um 15,7% á sama tíma (úr 687 í 579).

Innbrotum í Kópavogi hefur fækkað um 29,9% á sama tíma (úr 107 í 75).

Innbrotum í Mosfellsbæ hefur fækkað um 56,7% á sama tíma (30 í 13).

Efling sérsveitar, þyngri refsingar fyrir árásir á lögreglumenn, öflug valdbeitingartæki lögreglu, áhersla á greiningu og hættumat og efling lögregluskólans samhliða markvissri stefnu við framkvæmd löggæsluáætlunar eru allt úrræði til að styrkja lögregluna og eru raunverulegri viðfangsefni en talnadæmi Fréttablaðsins sem segja ekki alla söguna um liðsstyrk lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu.