11.9.2008 22:22

Fimmtudagur, 11. 09. 08.

Fyrsta september-þingi er að ljúka. Það hefur staðið í tæpar tvær vikur og með því lýkur þingi, sem sett var 1. október 2007. Ákveðið var að skipta því á þennan hátt, en nýtt þing kemur síðan saman 1. október 2008.

Í raun liggur ávinningur af því að efna til þingfunda á þennan hátt ekki í augum uppi. Nokkur mál hafa verið afgreidd, en þau hefði flest mátt afgreiða með fleiri þingdögum sl. vor. Ef til fundanna er efnt til að svara gagnrýni á langt sumarleyfi þingmanna, er það markmið í sjálfu sér.

Spurning er hvort ekki sé skynsamlegt að skipta þinginu í þrjár fundalotur á ári með hléum á milli. Að láta eins og þingmenn hafi óvenjulega lítil áhrif hér á landi, af því að lagafrumvörp frá þeim eða ályktanir séu ekki afgreiddar, gefur ekki rétta mynd af því, hvernig þing starfa almennt.

Ég minnist viðtals við forseta neðri deildar breska þingsins, sem sagði það höfuðhlutverk þings að afgreiða mál frá ríkisstjórn, því að þau endurspegluðu vilja meirihlutans.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þingmenn hér geti haft og hafi mikil áhrif á löggjöfina og ræðst það af öflugu starfi nefnda og þekkingar, sem þingmenn afla sér með setu í þeim.