10.9.2008 22:37

Miðvikudagur, 10. 09. 08.

Á sínum tíma hélt Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans og þingmaður Framsóknarflokksins, því gjarnan fram, að heimskunnir stjórnmálamenn, einkum í Bandaríkjunum, væru í raun framsóknarmenn. Einhverjir bloggarar tengdir Framsóknarflokknum hafa gert því skóna, að Barack Obama, forsetaframbjóiðandi, sé framsóknarmaður.

Mér finnst þetta álíka hlægilegt og tilraunir Valgerðar Sverrisdóttur og annarra framsóknarmanna til að eigna sér skoðanir mínar á lögheimildum til að semja við Evrópusambandið um evruna. Birkir J. Jónsson, flokksbróðir Valgerðar og samþingmaður, tekur að hæla Valgerði, eftir að hafa setið fund í Evrópuvaktnefndinni í morgun, en mér var boðið á fundinn til að skýra viðhorf mín. Þetta er aðeins enn eitt dæmið um, hve Evrópuumræður eru einkennilegar á íslenskum stjórnmálavettvangi.

Síðdegis kom Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri til fundar við okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þar sannaðist enn, hve vel hún heldur á þeim málum, sem hún ræðir og rökstyður. Á undraskömmum tíma hefur henni tekist að gjörbreyta andrúmsloftinu í garð sjálfstæðismanna í borgarstjórn.