9.9.2008 19:05

Þriðjudagur, 09. 09. 08.

Lene Espersen, dómsmálaráðherra Danmerkur, tók í dag við formennsku í flokki sínum, Íhaldsflokknum, en Bendt Bewndtsen, formaður, sagði af sér eftir níu ára formennsku og ætlar að snúa sér að Evrópuþinginu.

Lene hefur verið dómsmálaráðherra síðan 2001 og hef ég því hitt hana margsinnis á fundum, nú síðast fyrir viku í Ystad í Svíþjóð. Nú verður hún efnahags- og atvinnumálaráðherra. Hún sagðist fyrst hafa fengið símtal frá fráfarandi formanni í gær, þar sem hann skýrði henni frá ákvörðun sinni og hann styddi hana til formennsku, sem þingflokkur íhaldsmanna staðfesti í dag.

Lene segist ætla að beita sér fyrir skjótri niðurstöðu gagnvart Evrópusambandinu til að Danir geti ákveðið eigin stefnu í útlendingamálum. Hvernig hún ætlar að gera það, á eftir að koma í ljós, en yfirlýsing hennar um málið sýnir, hve djúpt það ristir innan ríkisstjórnarinnar, enda framtíð hennar í húfi.

Í Danmörku er fundið að því, að sameining lögregluumdæma hafi dregið verulega úr skilvirkni lögreglu, sem birtist meðal annars í fækkun fanga og auðum fangaklefum. Hér hefur hið gagnstæða gerst, löggæsla hefur orðið skilvirkari en áður og fangelsi eru þéttsetin.