6.9.2008 16:55

Laugardagur, 06. 09. 08.

Fjölmenni var við hátíðlega en látlausa jarðarför dr. Sigurbjörns Einarssonar biskups klukkan 14.00 í Hallgrímskirkju. Kirkjan var þéttsetin, sjónvarpað var og útvarpað frá athöfninni. Séra Jón Dalbú Hróbjartsson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, jarðsöng og flutti eftirminnilega og góða ræðu. Hörður Áskelsson var organisti og söngstjóri en Schola cantorum og Mótettukór Hallgrímskirkju sungu og voru kirkjugestir hvattir til að taka undir sönginn. Einstök erindi í sálmum dr. Sigurbjörns voru sungnir af Ernu Blöndal annars vegar og þeim Þorkeli Helga Sigfússyni og Erni Ými Arasyni í tvísöng hins vegar. Féll þetta vel að athöfninni eins og flautuleikur Magneu Árnadóttur og fiðlu og víólu leikur Sigurbjörns Bernharðssonar og Svövu Bernharðsdóttur.

Páll Valsson, bókmenntafræðingur og höfundur ævisögu Jónasar Hallgrímssonar, ritar minningargrein um dr. Sigurbjörn í Morgunblaðið, en Páll er kvæntur Höllu Kjartansdóttur, dótturdóttur Sigurbjörns. Páll segir:

„Það lýsir Sigurbirni vel að í einum göngutúrnum sagðist hann ekki ætla að setja sig inn í deilurnar um Evrópusambandið og hvort við ættum að ganga þar inn, „þið yngra fólkið verðið að leiða það til lykta,“ sagði hann. Stuttu síðar vorum við í samkvæmi og þá tók ég eftir því að Sigurbjörn var sestur að manni sem var vel að sér í þessum efnum og tekinn að þýfga hann um ýmis álitamál um Evrópusambandið – auðvitað gat hann ekki setið hjá og skilað auðu. Það var ekki í hans eðli og andstætt þeim eldmóði sem einkenndi hann alveg til hinstu stundar.“

Í minningargrein um dr. Sigurbjörn, sem ég ritaði í Morgunblaðið vitna ég í síðustu prédikunina, sem hann flutti en það var í Reykholtskirkju 27. júlí síðastliðinn. Hin tilvitnuðu orð í prédikunina í grein minni verða varla skilin á annan veg en þann, að dr. Sigurbjörn hafi ákveðið að gera upp hug sinn gagnvart Evrópusambandinu, þótt hvergi nefni hann það.

Var í kvöld á Þingvöllum og flutti ávarp í kvöldverði evrópskra sérfræðinga í menningarlandslagi, sem hér hafa verið síðan á fimmtudag í samvinnu við Fornleifastofnun Íslands.