5.9.2008 20:41

Föstudagur, 05. 09. 08.

Ræddi um lögreglumál á aðalfundi Lögreglustjórafélags Íslands frá 09.00 til 11.00 á hótelinu á Hellissandi. Vakti meðal annars máls á umræðum í Danmörku um breytingu á lögreglumannsstarfinu. Þar er rætt um hina „tænksomme“ eða íhugulu lögreglu, sem leggi meiri áherslu á að skilgreina yfirvofandi hættu og leitast að koma í veg fyrir hana en sýna vald sitt.

Þá ræddi ég skýrslu mína til alþingis um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007, en hún var lögð fram á fyrsta degi þess þings, sem nú situr. Þar sést svart á hvítu, að þeir, sem töldu lögreglu ganga fram af hörku og offorsi, stunda hleranir eða annars konar laumulegt eftirlit höfðu ekkert til síns máls. Mun ég reifa þau mál nánar hér á síðunni síðar.

Símakönnun Rasmussen skoðanakönnunar-stofnunarinnar í Bandaríkjunum sýna, að meira en 40 milljónir manna fylgdust með Söruh Palin, varaforsetaefna repúblíkana, flytja ræðu sína á flokksþinginu í St. Paul og slá í gegn á eftirminnilegan hátt. Barack Obama náði ekki til svo margra með ræðu sinni á flokksþingi demókrata - fjöldi áhorfenda á Söruh var jafnvel meiri en á Ólympíuleikana.

Fyrir einni viku höfðu 67% Bandaríkjamanna aldrei heyrt um Söruh Palin, nú sýna kannanir, að hún nýtur velvildar 58% bandarískra kjósenda. Palin nýtur nú meiri stuðnings en John McCain og Obama, en 57% eru hlynntir hvorum um sig en 48% Joe Biden, varaforsetaefni demókrata.

Berið þetta saman við spá Jónasar Kristjánssonar, fyrrv. ritstjóra, á síðu hans, jonas.is, 30 ágúst. Þar stóð:

„Sarah Palin gerir lítið fyrir framboð John McCain til forseta. Hún er að vísu ekki konan bak við eldavélina, þótt hún sé fyrrverandi fegurðardís. Hún er ágætur ræðumaður og ríkisstjóri í Alaska. En hún trekkir ekki fólk á sama hátt og Hillary Clinton hefði gert. Í fyrsta lagi er Palin yzt til hægri, en Clinton nálægt miðju stjórnmálanna. Þær konur, sem eru brjálaðar, vegna þess að Hillary komst ekki í framboð, munu ekki kjósa Palin. Konur hafa áður verið varaforsetapunt, slík staða trekkir ekki stuðningskonur Clinton. McCain þurfti öflugt varaforsetaefni og fékk hægri sinnað frík.“