23.8.2008 18:15

Laugardagur, 23. 08. 08.

Klukkan 10.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík og kynnti þar nýskipan lögreglumála fyrir nemendum í leiðtoga-meistaranámi. Var salurinn þétt setinn og mikil stemmning, ef svo má segja um kennslustund. Aðalsteinn Leifsson leiðir námið en í þessum tíma var það prófessor Gerard Seijts frá Richard Ivey School of Business í háskólanum í Vestur-Ontaríó í Kanada, sem stjórnaði umræðum. Hann hefur skrifað fræðilega úttekt á nýskipan lögreglumála hér og lagt hana fyrir nemendur sína.

Það var Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem bað mig, Stefán Eiríksson, lögreglustjóra, og Svein Ingiberg Magnússon, fyrrverandi formann Landssambands lögreglumanna, til að koma í tímann. Lýsa skoðun okkar á nýskipaninni, hvernig hún var undirbúin og framkvæmd.

Mun fleiri höfðu áhuga á að spyrja okkur á þeim tveimur tímum, sem við vorum í skólanum, en við höfðum tök á að svara. Kennslan er á ensku og öll samskipti leiðbeinenda og nemenda.

Það verður gaman að frétta af því, hvernig þessi kennslustund skilar sér í námi nemendanna, sem lýkur ekki, fyrr en næsta vor.

Síðdegis ritaði ég pistil um umræðuhefð og evru.