25.7.2008 21:36

Föstudagur, 25. 07. 08.

Fyrir nokkur rakti ég hér á síðunni hvað G. Valdimar Valdimarsson segir um Evrópumál og i 24 stundir ritaði ég grein til að benda á, hvernig Helga Vala Helgadóttir fjallar um Evrópumál. Þau eru málsvarar þess, að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Í gær komst ég svo að orði hér á síðunni, að Barack Obama hefði sniðgengið Brussel á ferð sinni um Evrópu. Fyrir mér vakti það eitt að nefna þessa staðreynd og ekkert meira. Árni Snævarr í Brussel segir af þessu tilefni: „Væntanlega er þetta sneið til Evrópusinna; les: ESB skiptir ekki máli.“ (!) Þetta sé auk þess til marks um „ofstæki“ mitt sem „einangrunarsinna“.

Ég spyr enn: Hvers á Evrópuumræðan að gjalda með slíkri viðkvæmni málsvara aðildar Íslands að Evrópusambandinu? Að segja það dæmi um „ofstæki“ að nefnt sé, að Obama heimsæki ekki Brussel er í raun dæmalaust. Með því að kalla mig einangrunarsinna er seilst lengra en góðu hófi gegnir, ef tekið er mið af skoðunum mínum og störfum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar fréttir um sýnilega löggæslu í miðborg Reykjavíkur. Einn af þráðunum, sem hann spinnur, er, að ég hafi móðgað forvera Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra í Reykjavík, með því að segja hann eina borgarstjórann í minni dómsmálaráðherratíð, sem hafi óskað eftir sérstökum fundi með mér um löggæslumál. Spuni Kolbeins breytir ekki þessari skoðun minni.

Með rannsóknarblaðamennsku hefur Fréttablaðið komist að því, að þess sé ekki getið í ferilskrá minni á vefsíðu alþingis, að ég hafi setið í borgarstjórn frá 2002 til 2006. Rannsóknarblaðamaðurinn ætti að upplýsa, hvers vegna sjálft alþingi kýs að halda þessu leyndu. Allt minnir þetta mig dálítið á málflutning R-listans, þegar Kolbeinn sat í borgarstjórnarflokki hans.