7.7.2008 22:02

Mánudagur, 07. 07. 08.

Líklega hef ég verið of jákvæður í svörum mínum við spurningum blaðamanna um þá ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladótturm utanríkisráðherra, að sendifulltrúi Íslands í Róm skyldi vekja máls á stöðu Pauls Ramses við ítölsk yfirvöld, því að hvergi hef ég heyrt eða séð neitt haft eftir mér um þetta framtak.

Í stuttu máli fagnaði ég því. Ég tók einnig fram, að Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, hefði fram á þetta ár farið með Schengenmálefni sem einn af framkvæmdastjórnarmönnum ESB og varaforseti framkvæmdastjórnarinnar. Hann hefði því yfirburðaþekkingu á þessu sviði og þar á meðal á framkvæmd Dublinsamningsins. Auk þess þekkti hann til hér á landi og rödd Íslands ætti örugglega hljómgrunn hjá honum.

Enginn kunnáttumaður í evrópskum útlendingamálum undrast, að ríki fari að Dublinarsamningnum. Ég hef áður bent á það hér á síðunni, að Grikkir standa frammi fyrir miklum vanda í þessu efni, því að hertar aðgerðir gegn ólöglegum innflytjendum í vesturhluta Miðjarðarhafs hefur leitt til mikillar fjölgunar þeirra í Grikklandi og á Kýpur.