5.6.2008 19:53

Fimmtudagur, 05. 06. 08.

Fundur Schengen-ráðherra hér í Lúxemborg í morgun snerist að mestu um ólögmæta hælisleitendur og hvernig taka eigi á málefnum þeirra.

Rigningin var ótrúlega mikil síðdegis en þá gafst tóm til að skoða nýtt tónlistarhús hér í borginni. Þar rúmar salurinn um 1500 gesti og er því ívið minni en salurinn í tónlistarhúsinu í Reykjavík.

Einnig litum við inn í nýlistasafnið, sem er ekki síður glæsileg bygging en tónlistarhúsið.

Menningarbyggingarnar eru báðar í Evrópuhverfinu svonefnda á Kirchberg. Þær eru við hliðina á fyrsta háhýsinu í Lúxemborg, sem reist var fyrir Evrópusambandið. Það stendur nú eins og fokhelt, þar sem verið er að endurgera það við hlið á nýrri ráðstefnumiðstöð. Þar til hún verður tekin í notkun eru fundir Schengen-ráðherranna í vörusýningarskála.