25.4.2008 19:38

Föstudagur, 25. 04. 08.

Klukkan 08.40 að lokinni qi gong hugleiðslu afhenti ég Ara Matthíassyni, forstöðumanni í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, 250.000 króna styrk til æskulýðsstarfs sem þakklætisvott frá Aflinum, félagi qi gong iðkenda, fyrir aðstöðuna, sem við höfum til stefnumóts við orkuna í Von þrjá morgna í viku.

Hélt fljúgandi til Akureyrar fyrir hádegi og ók þaðan til Húsavíkur, þar sem ég þáði hádegisverð í Gamla Bauk í boði sveitarstjórnar. Síðan hitti ég Halldór Kristinsson sýslumann, Sigurð Brynjúlfsson, yfirlögregluþjón, og samstarfsfólk þeirra við embætti sýslumanns.

Síðan skoðuðum við fallegar og vandaðar sýningar í Safnahúsinu og einstaka og fróðlega sýningu í Hvalasafninu.