21.4.2008 22:02

Mánudagur, 21. 04. 08.

Enn einu sinni stökkva sömu menn og áður upp á nef sér, þegar minnst er á, að ég telji nauðsynlegt, að í lögum sé heimild fyrir lögreglu til að kalla út varalið við sérstakar aðstæður. Ég er nú ekki frumlegri í þessari tillögugerð minni en svo, að hún byggist á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006, þegar varnarliðið hvarf úr landi.

Að varaliðs skyldi hafa verið getið í þeirri samþykkt verður greinilega til þess, að einhverjum rennur kalt vatn milli skinns og hörunds og ímyndar sér, að með varaliði sé í raun verið að tala um herlið.

Alþingi hefur nú samþykkt frumvarp Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um varnarmálastofnun. Þar er lögð rík áhersla á aðskilnað hernaðarlegrar og borgaralegrar starfsemi. Allt, sem snertir hernað, heyrir undir utanríkisráðherra. Varalið lögreglu hefur engu hernaðarlegu hlutverki að gegna, væri svo, ætti utanríkisráðherra að flytja frumvarp um málið.

Ég hef nú boðað, að ég sé fallinn frá að flytja sérstakt frumvarp um varalið lögreglu, tekið verði á málinu við endurskoðun lögreglulaga. Ætla mætti, að þessi ákvörðun róaði hina órólegustu vegna varaliðshugmyndanna. Sumum þeirra virðist að vísu vera svo uppsigað við lögreglu, að ekki má minnast á hana eða neitt í sambandi við hana, án þess að kalla þurfi á varalið til að róa þá. 

Fór klukkan 18.00 í Skálann á hótel Sögu, þar sem Samtök um vestræna samvinnu efndu til fundar með forseta þings ÖSE, Göran Lennmaker frá Svíþjóð.