15.4.2008 20:48

Þriðjudagur, 15. 04. 08.

Fjölmiðlamenn vildu ræða um framsalsmál við mig í dag vegna Pólverjans, sem var handtekinn í gær. Viðtalið var lengst í Kastljósi en þar létu stjórnendur í það skína, að einhver munur væri á viðhorfi mínu í framsalsmálum og Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra, eða Hildar Dungal, forstjóra útlendingastofnunar. Þessi ályktun fjölmiðlafólksins stenst ekki gagnrýni, enda á hún ekki við nein rök að styðjast.

Klukkan 11.30 hitti ég Michal Sikorksi, ræðismann Pólverja á Íslandi, með búsetu í Osló. Við ræddum leiðir til að efla samstarf milli lögreglu í Póllandi og á Íslandi og aukin skipti á upplýsingum milli yfirvalda á sviði réttargæslu.

Í morgun efndi ég til fundar með starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og skýrði frá því, að Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri, hefði óskað eftir að fá veikindaleyfi. Ákvað ég að setja Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra, ráðuneytisstjóra til 1. ágúst 2008 og Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra, staðgengil ráðuneytisstjóra til sama tíma.

Ríkisendurskoðun birti í dag skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2007 og áætlanir fyrir árið 2008. Þar segir á blaðsíðu 27:

„Tímamörk vegna skila áætlana miðast við lok desember ár hvert. Dæmi eru um ráðuneyti, svo sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið, sem gera í raun enn stífari kröfur um skil. Aðeins 3 stofnanir ráðuneytisins, af þeim 36 sem eiga að skila áætlunum, höfðu ekki skilað 10. desember 2007. Í nokkrum öðrum ráðuneytum höfðu engar áætlanir borist fyrir lok desember 2007. Ljóst er því að það verklag sem ráðuneytin hafa tamið sér er afar ólíkt. Þó ætti að vera mögulegt að flýta verulega skilum og afgreiðslu áætlana, sbr. dóms- og kirkjumálaráðuneytið.“

Ein þeirra þriggja stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem skilaði ekki áætlun fyrir árið 2008 fyrir lok desember 2007 var embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Áætlun þess fyrir 2008 hefur ekki enn verið samþykkt af ráðuneytinu. Nokkrir þingmenn hafa snúist öndverðir gegn tillögu ráðuneytisins um leið út úr krónískum fjárhagsvanda embættisins. Þar er Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingar, fremstur í flokki. Þingmennirnir bera m. a. fyrir sig, að þeir vilji vita um afstöðu ríkisendurskoðunar. Þeir ættu að lesa þessa nýju skýrslu stofnunarinnar. Þá sæju þeir, að ráðuneytið hefur ekki dregið upp rauða spjaldið að ástæðulausu miðað við leikreglurnar. Þá er þess einnig að vænta, að Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, hvetji samflokksmenn sína á þingi til þess að láta ekki undan kröfum þeirra, sem vilja hafa fjárlög að engu.