16.3.2008 21:15

Sunnudagur, 16. 03. 08.

Var klukkan 19.00 í þættinum Mannamál á Stöð 2 hjá Sigmundi Erni. Við ræddum lögreglumál, Evrópumál, stjórnarsamstarfið og stöðuna í borgarstjórn.

Ég tel, að Evrópuumræðan sé marklaus nema fyrst sé komist að því heima fyrir, hvernig á að standa að úrlausn málsins. Eiga að vera ein eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur a) um það hvort sækja eigi um aðild b) um aðildarskilmála. Hvaða reglur eiga að gilda um þjóðaratkvæðagreiðslurnar? Hvernig á að standa að breytingu á stjórnarskránni? Um þetta þarf vegvísi og heimavinnu. Það er engin spurning um, að ESB tekur okkur opnum örmum, enda förum við að öllum óskum ESB.

Ég hafnaði því eindregið, sjálfstæðismenn vildu ekki ræða Evrópumálin, tel raunar mesta þekkingu á þeim innan flokksins og menn komist ekki áfram með málin án forystu hans. Ég sagði fráleitt að kalla mann með mínar skoðanir í Evrópumann afturhaldssinna. Einnig væri fráleitt að leita fyrir sér um einhverja samninga í Brussel, annað hvort hefðu menn umboð til að semja eða ekki. Til að öðlast það umboð yrði að ræða málið í botn innan lands.

1995 fjarlægðist Alþýðuflokkurinn Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópustefnu sinnar og síðan voru jafnaðarmenn utan stjórnar í 12 ár. Vilja þeir lenda í sömu stöðu núna? Morgunblaðið telur í Reykjavíkurbréfi í dag, að Ingibjörg Sólrún sé að einangra flokkinn með Evrópustefnu sinni.

Ég sagðist telja meiri líkur á því að Samfylkingin klofnaði en Sjálfstæðisflokkurinn. Tók dæmi frá Þýskalandi, þar sem jafnaðarmenn eiga nú undir högg að sækja vegna sóknar frá vinstri, hið sama gæti hæglega gerst hér og Samfylkingin væri hrædd við vinstri/græna eins og birtist í stefnu hennar til orkunýtingar og stóriðju.

Ég hef sett tvær greinar úr vetrarhefti Þjóðmála 2007 og vorhefti 2008 um OR/REI málið hér inn á vefinn með góðfúslegu leyfi Jakobs F. Ásgeirssonar ritstjóra.