12.3.2008 20:35

Miðvikudagur, 12. 03. 08.

Ráðherraráðstefnan um nýskipan landamæravörslu, rafrænar vegabréfsáritanir og fleira hér í Slóveníu var fróðleg og gagnleg. Greinilegt er, að á þessu sviði eins og öðrum eru enn breytingar í vændum.

Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna kom á fundinn og gerði grein fyrir þróun landamæravörslu þar á bæ. Nú í haust kemur nýtt rafrænt eftirlit til sögunnar auk þess sem krafist er fingrafara af öllum tíu fingrum þeirra, sem til Bandaríkjanna fara.

Á fundinum kom fram, að talið væri, að um 50 milljónir manna hefðu hætt við að ferðast til Bandaríkjanna af andúð við hið mikla og síaukna landamæraeftirlit. Evrópuríki, sem taka á móti tugum milljóna ferðamanna á ári hverju, vilja ekki fá á sig slíkan stimpil.

Portúgalir hafa þróað rafrænt og sjálfvirkt kerfi til landamæravörslu. Það er til dæmis í Algarve, en þangað streyma Bretar (utan Schengen) hundruð þúsundum saman ár hvert. Hefur kerfið reynst mjög vel, flýtt fyrir allri afgreiðslu og dregið úr biðröðum fyrir utan að greina upplýsingar í vegabréfi og sannreyna við andlitsmynd af viðkomandi, áður en honum er hleypt sjálfvirkt inn í landið.

Hingað út til Bled berst reiðibylgja vegna héraðsdóms, þar sem tveir árásarmanna á lögreglumenn á Laugaveginum voru sýknaðir og hinn þriðji fékk vægan dóm. Að tillögu minni samþykkti alþingi nýlega hert ákvæði um þyngri refsingu, ef ráðist væri á lögreglumann. Það kemur greinilega fyrir ekki í þessu máli.

Nú væri gott fyrir dómstólaráð að hafa komið á skipan, sem tryggði, að niðurstaða dómara væri skýrð fyrir almenningi á viðunandi hátt.