20.1.2008 16:11

Sunnudagur 20. 01. 08.

Frá því ég varð formaður Þingvallanefndar árið 1992 hefur ekki verið rætt, hvort taka eigi nýja gröf í þjóðargrafreitnum. Ríkir þegjandi samkomulag um, að grafreiturinn fái að hvíla í friði.  Össur Skarphéðinsson sagði réttilega í útvarpsviðtali, að vel færi á því, að Skáksamband Íslands stæði að útför Bobbys Fischers, vilji hans nánustu, að hann sé jarðsettur hér á landi. 

Guðjón Ólafur Jónsson telur af og frá, að Björn Ingi Hrafnsson borgarfulltrúi segi sig úr Framsóknarflokknum vegna trúnaðarbréfs Guðjóns Ólafs. Björn Ingi setji nú leikrit á svið til að afla sér samúðar meðal flokksmanna. Guðjón Ólafur segist vera með mörg hnífasett í bakinu frá Birni Inga, þótt hann hafi fengið hann til starfa fyrir þingflokk framsóknarmanna fyrir fimm til sex árum. Í kringum Björn Inga sé sviðin framsóknarjörð í Reykjavík.

Pétur Gunnarsson, ritstjóri eyjan.is, gjörkunnugur innviðum Framsóknarflokksins og þeim Birni Inga og Guðjóni Ólafi, segir á eyjan.is: „Þetta er ógeðslegt mál, formaður Framsóknarflokksins kallar þetta „persónulegar deilur“ og að hann „standi með sínum mönnum.“ Í mínum huga er þetta atlaga með árásarmanni og fórnarlambi. Hver meðalleiðtogi hefði átt að koma auga á það og skilja sauðina frá höfrunum.“

Pétur vill sem sagt, að Guðni Ágústsson taki afstöðu í Reykjavíkurdeilunni miklu en haldi ekki með báðum. Enn er að sannast, að þrátt fyrir allt sé Framsóknarflokkurinn til skiptanna í Reykjavík, án þingmanns og með aðeins einn borgarfulltrúa, Björn Inga, sem kannski er á förum, þótt Guðjón Ólafur trúi því ekki.