7.1.2008 21:19

Mánudagur, 07. 01. 08.

Hér sögðu einhverjir spekingar, að til lítils yrði að fjölga myndavélum í miðborginni, öryggi borgarbúa mundi ekkert aukast við það. Í Kaupmannahöfn hefur morð með hnífsstungu á Strikinu sl. laugardagsmorgun orðið til þess, að krafist er fleiri eftirlitsmyndavéla í borginni. Vegna myndavélar fékk lögregla nákvæma vitneskju um, hvað gerðist, þegar 19 ára pitlur var stunginn til bana eftir ómerkilegt rifrildi um húfu. Strax var unnt að lýsa eftir hinum grunaða. Lögregla og borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn ætla að taka höndum saman um myndavélavæðinguna. Lög, sem heimila hana, eru ný samþykkt að frumkvæði Lene Espersen, dómsmálaráðherra.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ferðast um heiminn og talar fyrir fullu húsi, þótt hver áheyrandi þurfi að greiða 15 til 30 þúsund kr. fyrir að hlusta á hann. Í New Hampshire talaði hann ókeypis fyrir helgi og það voru nóg sæti. Clinton var að mæla með Hillary, konu sinni, í forsetaframboð. Undir ræðu hans á fundi í New Hampshire-háskóla sl. föstudag voru margar sætaraðir tómar. Laugardagsfundur hans var í leikfimisal skóla, sem rúmar um 700 manns, aðeins 225 komu og létu sér víst fátt um finnast.

1992 náði Bill Clinton sér á strik í prófkjöri demókrata í New Hampshire, þegar hann lenti í öðru sæti og lýsti sjálfum sér sem „the comeback kid“. Þetta var ekki gott „comeback“ hjá honum núna.