4.1.2008 23:19

Föstudagur, 04. 01. 08.

Danska dómsmálaráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu í dag um, að hætt væri að prenta hin dönsku Lovtidende en samkvæmt dönsku stjórnarskránni birtast þar öll dönsk log og hófst útgáfan árið 1871, þegar Ísland var enn hluti danska ríkisins. Hér eftir verða Lovtidene gefin út á netinu og segir í tilkynningunni, að með því sé fleirum en áskrifendum hins prentaða rits, sem einkum hafa verið lögfræðingar, gefinn kostur á að fylgjast með nýjum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

Sagt er, að stranglega hafi verið unnið að öryggisreglum vegna lovtidende.dk. Þá er tekið fram, að aðeins í Austurríki hafi menn áður farið inn á þessa rafrænu útgáfubraut stjórnartíðinda, Danir séu því aðrir í röðinni. Ástæða er til að mótmæla þessu hér, því að Stjórnartíðindi, sem geyma íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið rafræn frá 9. nóvember 2005 eins og kynnt var þann dag. Þá lauk rúmlega 130 ára prentsögu Stjórnartíðinda en Danir eru nú að ljúka 137 ára prentsögu Lovtidende hjá sér.

Dómstóll í Amsterdam hefur ákveðið, að loka skuli vændishúsi í hjarta borgarinnar, sem talið er, að Vítisenglar, Hell's Angels, reki. Er litið á þetta sem lið í því að rjúfa tengsl milli kynlífsiðnaðar og skipulagðrar glæpastarfsemi.