28.12.2007 21:43

Föstudagur, 28. 12. 07.

Í dag var kynnt við hátíðlega athöfn að hótel Sögu, að Frjáls verslun hefði valið Andra Má Ingólfsson mann ársins í íslensku viðskiptalífi. Var þetta í 20. skipti, sem Frjáls verslun stendur að þessu vali. Andri Már er vel að heiðrinum komin, enda hefur vöxtur fyrirtækis hans, Heimsferða, verið ævinitýri líkastur undanfarin ár.

Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona var valin íþróttamaður ársins og kynnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Var vel að dagskrárgerðinni staðið, „settið“ var þó eitthvað kauðskt, þar sem fulltrúar fréttamanna ræddu við Margréti Láru, eftir að hún hafði tekið við titlinum og hinum mikla „bikar“, sem honum fylgir. Margrét Lára er greinilega góð og mikil fyrirmynd auk þess að hafa náð frábærum árangri á vellinum.

Í fréttum sjónvarps ríkisins var í kvöld sagt frá því, að greiningardeildum bankanna hefði tekist illa upp í spám sínum um hlutabréfamarkaðinn og þróun hans á árinu. Markaðurinn hefði í raun þróast í þveröfuga átt við spásögnina.

Í jólahefti Vísbendingar er viðtal við Jónas Haralz og Jón Sigurðsson, sem báðir störfuðu við efnahagsráðgjöf fyrir ríkisstjórnina á sínum tíma og sakna Þjóðhagsstofnunar. Ekkert hafi komið í hennar stað til ráðgjafar um efnahagsmál. Um greiningardeildir bankanna segir Jónas Haralz:

„Ég er krítískur á starfsemi greiningardeilda bankanna. Ég sé ekki vel tilganginn með þeim. Það sem þær segja um almenna efnahagsþróun er lítils virði. Það eru ekki nema sjálfsagðir hlutir. Og greiningin hjá þeim er grunnfærin. Svo eru þeir allir með það sama, allir bankarnir á sama tíma. Okkur vantar óháða stofnun, Þjóðhagsstofnun var lögð niður og ég held það hafi verið mistök. Það var ýmislegt í hennar fari sem ekki var á réttri braut eins og komið var. Nú er ekkert nema tómarúm og ríkisstjórnina sjálfa vantar alla leiðbeiningu.“

Jón Sigurðsson tekur undir þess orð Jónasar og segir: „Uppistaðan í efnahagsfréttunum um þessar mundri - sem eru að sumra áliti of hátt hlutfall frétta á Íslandi yfirleitt - er efni frá greiningardeildum bankanna. Það er auðvelt að taka undir með Jónasi, að það væri æskilegt að „hlutlausari“ aðilar hefðu hér stærra rúm.“

Ég er ekki sammála Jónasi um að ríkisstjórnina vanti „alla leiðbeiningu“ í efnahagsmálum, þótt Þjóðhagsstofnun sé úr sögunni. Hitt er umhugsunarefni, ef íslenskir háskólar eða stofnanir á þeirra vegum hafa hvorki burði til að ávinna sér traust með málefnalegum ábendingum í efnahagsmálum né öryggis- og varnarmálum. Hvað veldur?