23.12.2007 16:24

Sunnudagur, 23. 12. 07.

Fyrir hádegi var óvenjulega rólegt yfir öllu, þegar farið var um borgina. Þar sem ég leit inn í verslanir, var lítið um að vera, en í miðborginni bjuggu menn sig undir mikinn mannfjölda í kvöld eins og venjulega á Þorláksmessu. Veðrið er bjart og fallegt og þegar þetta er skrifað, ljómar tunglið fullt í himinfestingunni.

Ég hef stundum nefnt það hér á síðunni, að fréttamenn eigna gjarnan ráðherra lagafrumvörp, sem sæta gagnrýni - þegar þeir vilja leggja áherslu á, að eitthvað meira en lítið sé fundið að frumvarpinu er það síðan tengt nafni ráðherrans.

Á ruv.is má lesa:

„Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að hann muni skila ítarlegum rökstuðningi vegna umdeildrar skipunar sinnar á Þorsteini Davíðssyni, aðstoðarmanni dómsmálaráðherra og syni Davíðs Oddsonar, í embætti héraðsdómara, óski aðrir umsækjendur um stöðuna eftir því. “

Þorsteinn Davíðsson er í hópi lögfræðinga, sem fara með ákæruvald hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hann sótti sem slíkur um embætti héraðsdómara, ekki vegna þess að hann sé aðstoðarmaður minn eða sonur Davíðs Oddssonar.  Með því að tengja nafn hans við mig eða föður hans er greinilega verið að lýsa tortryggni vegna ákvörðunar Árna Mathiesens. Spyrja má: Er þetta málefnalegt fréttamat?

Vegna færslu minnar hér á síðunni í gær um inntak starfa aðstoðarmanns ráðherra, kýs Egill Helgason að lýsa sérstakri vanþóknun sinni á þessu starfi og þeim, sem því gegna eða hafa gegnt. Egill hefur nú á skömmum tíma afskrifað þjóðkirkjuna, eflingu löggæslu (nema í nágrenni við sig í miðborginni) og aðstoðarmenn ráðherra.