22.12.2007 18:49

Laugardagur, 22. 12. 07.

Klukkan var um 02.00, þegar ég kom heim í nótt úr ferðinni til Tallinn, til að fagna stækkun Schengensvæðisins. Skýringin á seinkun Icelandair-vélarinnar frá Kaupmannahöfn var, að tafir hefðu orðið á vélinni í fyrra flugi.

Á Kastrup-flugvelli mátti sjá fjömennan hóp Pólverja koma úr vélinni frá Íslandi og kallað var í hátalara, að þeir ættu að fara að þjónustuborði SAS - þeir hafa örugglega misst af flugvélinni til Varsjár eða Gdansk.

Frá því að ákvæði um aðstoðarmenn ráðherra voru sett hér í lög hefur fjöldi manna gegnt þeim störfum eins og sjá á skrá, sem birt er í Sögu stjórnarráðsins frá 2004. Árni M. Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, telur, að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til starfa Þorsteins Davíðssonar sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra í mati nefndar á hæfi umsækjenda um dómarastörf. Vegna ráðherrastarfa sinna á Árni miklu auðveldara með það en umsagnarnefndin að gera sér grein fyrir inntaki starfs aðstoðarmanna - viðfangsefni þeirra ráðast að sjálfsögðu af verkefnum ráðherrans.