6.12.2007 9:25

Fimmtudagur, 06. 12. 07.

Það er til marks um miklar breytingar á skömmum tíma, að í dag skuli hafa farið fram umræða á alþingi, þar sem Geir H. Haarde forsætisráðherra þurfti að taka upp hanskann fyrir þá, sem að því hafa staðið að breyta mannvirkjum í Keflavíkurstöðinni í verðmæti.

Fyrir ári var rætt um þetta mál á allt öðrum grunni á alþingi. Þá var þingið að fjalla um frumvarp til laga um sérstakt þróunarfélag til að sinna verðmætum í Keflavíkurstöðinni, sem stóðu yfirgefin eftir brottför Bandaríkjahers, sum þeirra lágu raunar undir skemmdum, eftir að flæddi í fyrsta frosti vetrarins.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um áhrif frumvarpsins á ríkissjóð er aðeins rætt um útgjöld vegna þess og sagt, að í fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2007 sé gert ráð fyrir 280 m. kr. framlagi til að standa straum af kostnaði við umsjón, rekstur, öryggisgæslu og viðhald varnarsvæðisins og mannvirkja íslenska ríkisins á svæðinu. Þá sagði: „Þar sem vinna við svæðið og umbreytingu þess er rétt að hefjast eru áætlanir háðar óvissu. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar taki breytingum eftir því sem fasteignum á svæðinu verður komið í borgaraleg not.“

Á undraskömmum tíma hefur þróunarfélaginu tekist undir formennsku Magnúsar Gunnarssonar að skapa ríkissjóði 15 til 20 milljarða króna tekjur með sölu á þessum eignum.

Fyrir ári var kallað eftir aðild sveitarfélaga að öllum ráðstöfunum eignanna og sagt, að halda yrði verði þeirra í skefjum til að raska ekki fasteignamarkaði utan Keflavíkurstöðvarinnar. Nú hneykslast stjórnarandstaðan á því, að sveitarstjórnarmenn komi að störfum þróunarfélagsins og verð á seldum eignum hafi verið alltof lágt. Hver er skýringin? Jú, sjálfstæðismenn hafa verið að hygla hverjir öðrum. Í því tali er auðvitað skautað fram hjá því, að eigi forystumenn næstu sveitarfélaga að koma að málinu, eru þeir sjálfstæðismenn, vegna þess hve flokkurinn hefur þarna sterka stöðu með stuðningi kjósenda.

Hafi einhver tapað trúverðugleika í þessu máli, er það Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, sem reynir endalaust að fiska í því grugguga vatni, að hann skorti upplýsingar, fái ekki að sjá það, sem hann vill sjá, og ekki sé unnt að treysta ríkisendurskoðun til að leiða hið sanna fram.

Langt er síðan seilst hefur verið jafnlangt og Atli Gíslason gerir í þessu máli til að koma spillingarstimpli á pólitíska andstæðinga - hið undarlega er, að þetta gerir þingmaðurinn með þau orð á vörunum, að hann hafi ekki fengið nægilega mikil gögn um málið. Það gæti sem sagt verið satt að hans mati, á meðan hann hefur ekki kynnt sér málið til hlítar.

Spuni af þessu tagi er notaður, af því að menn vita, að hann á hljómgrunn meðal fjölmiðlamanna og unnt er að halda sér í sviðsljósinu í krafti hans.

Fyrir nokkru var því haldið fram í hljóðvarpi ríkisins, að í umsögn fjármálaráðuneytisins um kostnað vegna frumvarpsins um meðferð sakamála kæmi fram ágreiningur á milli mín og fjármálaráðherra. Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, túlkaði umsögn fjármálaráðuneytisins á þann veg, að verið væri að bola mér úr ríkisstjórninni!

Í nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins, sem út kom í dag segir:

„Til að fylgja eftir verklagi rammafjárlaga samþykkir ríkisstjórnin eftir framlagningu fjárlagafrumvarps ár hvert vinnureglur um hvernig staðið skuli að undirbúningi 2. og 3. umræðu fjárlaga og hvernig eigi að mæta kostnaði við ný lagafrumvörp og ákvarðanir. Í samþykktinni nú í haust segir t.d.: „Lagafrumvörpum og reglugerðum sem lögð eru fyrir ríkisstjórn og hafa í för með sér kostnaðarauka árið 2007 eða 2008 fylgi áætlun um hvernig þeim kostnaði skuli mætt innan útgjaldaramma viðkomandi ráðuneytis og langtímaáætlunar.”

Dæmi eru um að einstök ráðuneyti láti ekki fylgja frumvarpi sem lagt er fram í ríkisstjórn áætlun um það hvernig kostnaði, sem fyrir liggur að fylgja muni lögfestingu lagafrumvarps verði mætt innan útgjaldarammans, en ríkisstjórnin samþykki allt að einu að frumvarpið verði lagt fram. Hefur fjármálaráðuneytið nú tekið upp það verklag að láta það koma fram í kostnaðarumsögnum með viðkomandi frumvörpum að ekki sé í fjárlagafrumvarpi eða fjárlögum gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að standa straum af kostnaði sem hlýst af frumvarpinu og ekki liggi fyrir hvernig útgjöldum vegna viðkomandi frumvarps verði mætt. Með þessu er athygli vakin á því að eftir sé að leysa það hvernig kostnaði sem lögfesting viðkomandi frumvarps muni hafa í för með sér verði mætt.“ (Feitletrun Bj. Bj.)

Með umsögn sinni um sakamálafrumvarpið er fjármálaráðuneytið að hrinda nýju verklagi í framkvæmd. Að þessi staðreynd rati til spunameistarana, er líklega borin von. Þeir kjósa heldur að ýta undir ágreining með því leita að einhverjum spunaþræði.