20.11.2007 8:28

Þriðjudagur, 20. 11. 07.

Evrópunefnd, skipuð fulltrúum allra flokka, komst að þeirri meginniðurstöðu í skýrslu, sem birtist í mars 2007, að EES-samningurinn hefði staðist tímans tönn og hann væri sá grundvöllur, sem samskipti Íslands og Evrópusambandsins byggðust á og rétt væri að þróa áfram. Dró nefndin þessa ályktun eftir að hafa rætt alla þætti Evróputengsla Íslands og ritað um þá skýrslu. Nefndin taldi ekki ástæðu til að semja að nýju við Evrópusambandið heldur ætti að nýta þau vannýttu tækifæri, sem samningurinn veitir. Ríkisstjórnin tók síðan undir þetta í stefnuyfirlýsingu sinni.

Nú kemur Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fram í fyrstu morgunfrétt hljóðvarps ríkisins og telur, að endurskoða þurfi EES-samninginn, vegna þess að Íslendingar hafi engin áhrif á grundvelli hans á gerðir Evrópusambandsins. Vissulega er ekki unnt að gera þá kröfu til starfsmanna fréttadeildar hljóðvarps ríkisins, að þeir kynni sér skýrslu Evrópunefndar, en Katrín, sem er fyrir utan að vera þingmaður er einnig formaður EFTA-þingmannanefndarinnar, ætti að hafa gert það. Gott væri, að Katrín svaraði þessari spurningu: Hvað hefur gerst síðan í mars 2007, sem veldur því, að EES-samningurinn er orðinn gagnslaus?

Hljóðvarp ríkisins birti síðastliðinn sunnudag fréttaviðtal við Atla Gíslason, þingmann vinstri/grænna, um að vegna ákvæða um varnir gegn hryðjuverkum, væri ég að vega að mannréttindum í frumvarpi til breytinga á hegningarlögunum. Ég hef bent á, að þetta frumvarp er samið af refsiréttarnefnd að minni tilstuðlan vegna alþjóðasamninga, meðal annars Evrópuráðsins um baráttuna gegn hryðjuverkum.

Róbert Ragnar Spanó, formaður refsiréttarnefndar, ritar grein um þetta mál í Morgunblaðið í dag og staðfestir þau orð mín, að ákvæðið, sem Atli segir vega að mannréttindum á uppruna í samningi Evrópuráðsins, sem leggur sig fram um að gæta mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum að sögn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns á Evrópuráðsþinginu og formanns vinstri/grænna.

Skyldu sjónarmið Evrópunefndar um gildi EES-samningsins að lokinni mikilli rannsókn eða sjónarmið mín og refsiréttarnefndar varðandi hryðjuverk komast að í fréttatímum hljóðvarps ríkisins? Eða gildir þar sama reglan og um þingfréttir almennt, að vel rökstuddar meginskoðanir víkja fyrir sérsjónarmiðum eða sleggjudómum?