30.10.2007 22:34

Þriðjudagur, 30. 10. 07.

Kom heim frá Kaupmannahöfn í dag.

Las í Weekendavisen hugleiðingu eftir Thomas Borring Olesen, prófessor við Árósarháskóla, um það, hvort Danir væru að verða utanveltu í norrænu samstarfi. Þannig hefði danski utanríkisráðherrann ekki verið boðinn til Bodö á dögunum af norskum starfsbróður sínum, Jonas Gahr Störe, sem bauð Svíum og Finnum til að ræða um utanríkis- og öryggismál.

Hið sama væri að segja um ræðu, sem Störe hélt í Militær Samfund í Osló 10. október undir fyrirsögninni: Breytingar á Norðurslóðum - hvernig geta Noregur, Finnland og Svíþjóð eflt samstarf sitt? Utanríkisráðherrar Noregs flyttu ekki ræður á þeim vettvangi nema til að boða eitthvað merkilegt.

Í ræðu sinni vék norski utanríkisráðherrann meira að samstarfi við Íslendinga en Dani og minnti á að Norðmenn og Danir hefðu gert samninga við Íslendinga eftir brottför bandaríska varnarliðsins. Samstarfið við Ísland tæki mið af því, að halda yrði úti eftirliti með aukinni skipaumferð á Norðurslóðum.

Að mínu áliti er engin spurning um áhuga Dana á því að tryggja öryggi á siglingaleiðunum yfir N-Atlantshaf og ber að hafa í huga skyldur þeirra í því efni í Færeyjum og Grænlandi.