15.10.2007 18:36

Mánudagur, 15. 10. 07.

Nú er að skýrast, að Íslendingar fara ekki út á jarðhitamarkað heimsins eins og einu sérfæðingarnir á nýtingu jarðhita. Víða um lönd nýta menn þessa orku og búa yfir þekkingu til þess.

Hvernig er unnt að meta aðgang að þekkingu starfsmanna OR á 10 milljarða? Hafa þeir ritað sérfræðilegar greinargerðir? Starfa hinir fræðilegu sérfræðingar ekki flestir hjá öðrum: Fjarhitun, VGK., ENEX, OS (nú ISOR), o.s.frv.? Enginn þessara sérfræðinga er heldur ráðinn á þann veg, að þeir geti ekki hætt hjá OR með eðlilegum uppsagnarfresti. Nú hefur komið fram sú skýring, að REI á að hafa aðgang að viðskiptaleyndarmálum OR, eða öllu heldur forstjóri REI á að hafa aðgang að þeim, þótt REI verði óháð OR, og þótt Hitaveita Suðurnesja (HS) yrði alfarið í eigu REI og keppinautur OR á markaði. Þá virðist felast í samningnum, að OR verði ásýnd REI gagnvart umheiminum.

Því má velta fyrir sér, hvort þeir, sem sömdu fyrir hönd OR hafi sætt einhverjum afarkostum eða hvort samningar OR hafi í raun verið gerðir af þeim, sem báru hagsmuni REI meira fyrir brjósti en hagsmuni OR.

Fyrsta athugasemd mín hér á síðunni um þetta mál snerist um, hvort enn væri fylgt þeirri stefnu, sem við sjálfstæðismenn gagnrýndum mjög á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar, að mál OR væru hvorki rædd í borgarráði né borgarstjórn. Eftir því sem mál hafa skýrst vakna spurningar um, hvort mál OR hafi verið rædd í stjórn OR.