7.10.2007 18:22

Sunnudagur, 07. 10. 07.

Enn sannast kenning Harolds Wilsons, forsætisráðherra Breta, að vika sé langur tími í stjórnmálum. Um síðustu helgi sýndu kannanir breska Verkamannaflokkinn með 11% forskot á Íhaldsflokkinn og flestir spáðu, að nú um helgina myndi Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, boða til kosninga í haust. Nú mælast íhaldsmenn með 3% forkost og Brown segist ekki ætla að rjúfa þing á þessu ári og líklega ekki hinu næsta, hann vilji sanna þjóðinni áhrif eigin stjórnlistar, áður en kosið er.

Í The Economist, sem fór í prentun sl. fimmtudag er gengið að því vísu, að Brown boði til kosninga í haust.

Hvað gerðist? David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, sló í gegn á flokksþingi í vikunni sem leið með því að flytja í meira en klukkustund blaðalaust ræðu, þar sem hann lýsti því, hvernig hann myndi halda á málum sem forsætisráðherra. Geri aðrir betur!

Nú er hart sótt að Gordon Brown og hann sakaður um hik og hugleysi. Breskur þingmaður, sem ég hitti á NATO-þinginu hér í Reykjavík, sagði niðurstöðu Browns ekki koma sér á óvart. Hann hefði sem fjármálaráðherra allaf haft vaðið fyrir neðan sig, það breyttist ekki, þótt hann væri orðinn forsætisráðherra.