3.10.2007 22:29

Miðvikudagur, 03. 10. 07.

Hélt rétt fyrir 10.00 til Grundarfjarðar og var þar í hádeginu í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, þar sem vel var á móti okkur tekið. Skólinn er einstakur að innri gerð bæði að því er varðar rafræna kennsluhætti og innréttingar. Var ánægjulegt að kynnast því, hve vel hefur til tekist og hve mikill áhugi er á því að stunda nám við skólann. Hér á síðunni má áreiðanlega finna frásagnir af uppruna skólans, því að ég sat fundi um stofnun hans og skipulag.

Klukkan 13.00 hófst athöfn að Kvíabryggju til að fagna því, að fangelsið hefur verið endurgert og stækkað. Fangaklefum hefur verið fjölgað úr 14 í 22 og öll sameiginleg aðstaða er meiri og betri en áður. Flutti ég ávarp við athöfnina, sem var vel sótt og hátíðleg.

Við fengum að kynnast afstöðu Dana til opinna fangelsa á borð við fangelsið á Kvíabryggju. Fyrirlesari var spurð að því, hvaða ókosti hún teldi helst við þessa gerð fangelsa. Hún sagðist ekki sjá neinn, en þó helst, að erfitt gæti verið að finna fyrir þau stað vegna fordóma nágranna, sem vildu ekki fá slíka starfsemi í nágrenni við sig. Slíkra fordóma gætir alls ekki í Gundarfirði, þvert á móti. Við athöfnina í dag var enn áréttað, hve vel Grundfirðingar kunna að meta nábýlið við Kvíabryggju.

Rétt fyrir 18.00 var ég kominn heim aftur.