10.9.2007 21:07

Mánudagur, 10. 09. 07.

Það var rigning og rok á leiðinni suður frá Þingeyrum.

Þeir ræddu við mig á Bylgjunni, Reykjavík síðdegis, um hryðjuverkamennina, sem náðust í Danmörku og Þýskalandi og gildi leyniþjónustu í þeirri baráttu. Hvort hún væri starfandi hér? Nei, því að greiningardeild lögreglunnar er ekki leyniþjónusta. Sagði furðulegt að heyra gagnrýnt, að greiningardeildin fengi aðgang að gagnagrunnum lögreglunnar, sem hafa verið lögfestir og lúta eftirliti Persónuverndar. Fagnaði miðborgaraðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með þátttöku sérsveitarinnar. Lögreglan léti ekki sinn hlut eftir liggja, henni bæri einnig að fylgjast með starfi veitingastaða og þeir færu að reglum, þá yrðu borgaryfirvöld að láta að sér kveða á sínu sviði, félagsmálayfirvöld og skipulagsyfirvöld. Taldi aðstæður ekki hér hinar sömu og í Danmörku og Þýskalandi, þegar litið væri til landamæravörslu og þjóðfélagsstrauma, hér væru minni líkur en þar, að menn snerust til slíks trúarhita, að þeir hæfu undirbúning hryðjuverka gegn samborgurum sínum. Hitt væri víst, að hryðjuverkamenn litu til allra landa. Eftir að þeir óku á flugstöðina í Glasgow bárust fréttir um, að þeir áttu að nota ferðalag til Íslands sem fjarvistarsönnun.