9.9.2007 18:50

Sunnudagur, 09. 09. 07.

Ók snemma morguns með Ingimundi Sigfússyni og Valgerði Valsdóttur, konu hans, norður að Þingeyrum, þar sem haldið var hátíðlegt 130 ára vígsluafmæli hinnar fögru kirkju á staðnum. Við hátíðarguðþjónustu þjónaði sr. Sveinbjörn R. Einarsson fyrir altari en herra Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum, prédikaði.

Eftir kirkjukaffi í Klausturstofu, nýju safnaðarheimili kirkjunnar, voru tónleikar í kirkjunni með verkum eftir Jón Hlöðver Áskelsson. Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Hörður Áskelsson lék á orgel og Hrafnkell Orri Egilsson á selló. Þá var sýnt myndverkið Súlur eftir Heimi Frey Hlöðversson.

Dagskráin var til heiðurs Arngrími Brandssyni, sem var ábóti Þingeyraklausturs, fyrsta nafngreinda organsmiðs landsins og ritara sögu Guðmundar biskups góða.

Fjölmenni var í messunni og á tónleikunum. Veður var kyrrt og fagurt.