6.9.2007 8:13

Fimmtudagur, 06. 09. 07.

Átta rússneskar sprengjuflugvélar flugu í dag frá Múrmansk-svæðinu út á Norður-Atlantshaf og var fylgt eftir af norskum og breskum orrustuþotum. Talsmenn Norðmanna og Breta gera lítið með ferðir vélanna, enda sé ekkert við því að segja, að Rússar æfi sig á alþjóðasvæði. Ráðuneytisstjóri íslenska utanríkisráðuneytisins ætlar hins vegar að kalla rússneska sendiherranna á sinn fund. Hér verður sagt frá frásögnum BBC og mbl.is af þessu máli.

BBC lýsir ferðum átta rússneskra Tupolev Tu-95 Bear-sprengjuvéla í dag. Flugu þær tvær saman, það er í fjórum hópum.

Tvær norskar F-16 orrustuþotur flugu af stað rétt eftir klukkan 06.00 að rússnesku vélunum frá Bodö, þegar þær voru á alþjóðlegri flugleið úr Barentshafi út á Atlantshaf. Norsku vélarnar fylgdu Rússunum að loftvarnasvæði Breta, sem sendu fjórar F3 Tornado-orrustuþotur í tveimur hópum frá Leeming-flugherstöðinni í Norður-Yorkshire til móts við Rússana. Boeing E-3D (þ.e. AWACS) ratsjárvél fylgdi bresku þotunum og einnig VC-10 eldsneytisflugvél. Ratsjárstöð breska flughersins í Boulmer í Northumberland fylgdist með rússnesku vélunum.

Haft er eftir talsmanna breska varnarmálaráðuneytisins, að ekkert sé við það að athuga, að Rússar fljúgi langdrægum sprengivélum sínum á þessum slóðum. Allar þjóðir hafi rétt á að viðhalda eða efla og æfa varnarviðbúnað sinn. Markmiðið með þessu sé mál rússneskra stjórnvalda.

Tvær norskar F-16 orrustuþotur fóru á loft um klukkan 12.00 og fylgdust með rússnesku vélunum norður fyrir Knöskanes, eftir að þær höfðu snúið við norður af Bretlandseyjum og héldu að nýju til stöðva í Rússlandi. John Inge Öglænd, yfirlautinant, talsmaður norska hersins, sagði BBC, að Norðmenn fylgdust af áhuga með auknum umsvifum Rússa á Norðurslóðum. Ferðir rússnesku vélanna vektu ekki ugg í Noregi. „Viðbúnaður okkar er nægur,“ sagði hann, þegar spurt var, hvort Norðmenn hefðu hert öryggisráðstafanir á svæðinu.

Í frétt á mbl.is segir:

„Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að óska eftir því, að sendiherra Rússlands komi til fundar í ráðuneytinu vegna ferða rússneska sprengjuflugvéla innan íslenska flugstjórnarsvæðisins í morgun. Íslensk stjórnvöld fylgdust með ferðum flugvélanna í morgun með íslenska loftvarnakerfinu. Vélarnar voru átta talsins, af gerðinni Tupolev-95, sem á sínum tíma gengu undir nafninu Björninn. Fóru þær næst Íslandi er þær voru um 120 sjómílur frá Höfn í Hornafirði.

Sendiherra Rússlands hefur verið kallaður á fund Grétars Más Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.

„Þegar vélar koma á opinberum vegum inn í okkar lofteftirlitssvæði án þess að tilkynna sig þá biðjum við um skýringar," sagði Grétar Már í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hver var niðurstaða fundar þíns við sendiherrann síðast þegar þetta gerðist?

„Þá fór ég fram á að vélar myndu tilkynna sig og mér var sagt að sú beiðni yrði tekin upp í Moskvu en ég hef ekki fengið svör við því ennþá," sagði Grétar Már.

Hann átti von á að funda með sendiherranum á morgun eða strax eftir helgi.

„Við fylgdumst með þessum vélum allan tímann og eftirlitskerfið virkaði ágætlega og við vorum í góðu sambandi við okkar nágranna í Noregi og á Bretlandi," sagði Grétar Már.

„Þetta voru svokallaðir Birnir sem eru ríflega 50 ára gamlar vélar og það er aðdáunarvert hvað þær virðast duga vel," sagði Grétar Már.“