4.9.2007 21:05

Þriðjudagur, 04. 09. 07.

Nú hefur verið skýrt frá því, að liðsmenn úr sérsveit lögreglunnar verði næstu mánuði við eftirlitsstörf að næturlagi í miðborg Reykjavíkur með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar með hafa ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákveðið að beita auknu afli til að stemma stigu við næturómenningu í miðborginni.

Aðrir ættu að feta í fótspor þeirra og gera ráðstafanir, hver á sínu sviði. Dr. Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í dag og segir frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á þeim ófögnuði, sem fylgir næturskemmtunum á veitingastöðum, sem opnir eru fram undir morgun. Í lok greinar sinnar nefnir hún það, sem hún telur helst til ráða til að stemma stigu við ómenningunni:

„Sjálfsstjórn gesta, vel þjálfað starfsfólk, heppileg húsakynni, gott andrúmsloft og virkt eftirlit með veitingastöðum eru atriði sem hægt er að hafa áhrif á með margs konar forvarnaaðgerðum.“

Borgaryfirvöld og veitingamenn verða að sýna í verki, að gripið verði til þeirra forvarnaraðgerða, sem dr. Hildigunnur lýsir í grein sinni. Eftirlit með veitingastöðum og útgáfa á rekstrarleyfi til þeirra er frá 1. júlí sl. í höndum lögreglu og hefur hún þegar stöðvað nektarsýningar á tveimur stöðum, sem ekki fóru að reglum.

Álitsgjafar, sem gára yfirborðið, og Samfylkingarfólk, sem segist geta leyst næturvanda miðborgarinnar eftir eina næturvakt með lögreglunni, hrópa hæst á aukna hörku af hálfu lögreglunnar.

Ég tel sjálfsagt að látið sé reyna á aukið afl lögreglunnar í miðborg Reykjavíkur. Ég hef lagt mig fram um að haga skipulagi lögreglu þannig, að í senn sé fyrir hendi greining á ástandi og afl til að takast á við það. Fráleitt er að taka ekki mark á greiningu eins og þeirri, sem dr. Hildigunnur Ólafsdóttir lýsir. Sé farið eftir henni, skiptir það mestu, sem gerist inni á veitingastöðunum og við dyr þeirra. Þar bera veitingamenn ábyrgð og geta ekki skorast undan henni.