27.8.2007 18:44

Mánudagur, 27. 08. 07.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag segir:

„Í Morgunblaðinu í gær var skýrt frá því að Hæstiréttur hefði skilað inn umsögnum um hæfi og hæfni umsækjenda um lausa dómarastöðu við Hæstarétt. Dómsmálaráðherra staðfesti við Morgunblaðið að slík umsögn hefði borizt.

Að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins telur meirihluti réttarins að þrír umsækjendur séu hæfastir. Tveir dómarar skila séráliti og telja að rétturinn hafi enga heimild til að raða umsækjendum í hæfnisröð og telja alla umsækjendur hæfa. Einn dómari telur að fjórði umsækjandinn sé jafnhæfur og hinir þrír.

Samkvæmt texta laganna á Hæstiréttur að veita umsögn um hæfi og hæfni umsækjenda. Í lögunum segir ekki að rétturinn eigi að raða umsækjendum í röð eftir því hver eða hverjir séu hæfastir að mati réttarins.

Hvað gerist nú ef Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tæki upp á því að endursenda bréf dómaranna og óskaði eftir því, að umsögnin yrði í samræmi við íslenzk lög?

Er ekki nauðsynlegt að draga línuna einhvers staðar og er betra tækifæri til þess en einmitt nú þegar rétturinn fjallar um nýja umsækjendur?

Það er svo önnur saga, að Morgunblaðið hefur lýst þeirri skoðun, að þessu fyrirkomulagi eigi að breyta. Dómararnir sjálfir eigi ekki að fjalla um eftirmann þess, sem lætur af störfum.

Sendir Björn svona bréf?“

Svarið er: Ég endursendi ekki bréf dómaranna. Niðurstaða þeirra um efni laga vegur þyngra en höfundar Staksteina. Framsækin túlkun dómara á lögum er ekki óþekkt hér frekar en annars staðar.