26.8.2007 18:12

Sunnudagur, 26. 08. 07.

Var klukkan 09.20 í stjórnstöðinni við Skógarhlíð og hitti þá, sem stjórnuðu leit af tveimur þýskum ferðamönnum á Öræfajökli. Leitin var mjög umfangsmikil og var björgunarsveitin á Höfn í Hornafirði leiðandi við hana en kallað var á hæfustu fjalla- og björgunarmenn af öllu landinum alls 131. Lögreglan á Eskifirði mat aðstæður í tjöldum mannanna. Þar fannst miði með dagsetningum og fjölda klukkustunda, sem talið er, að sýni göngustundir hvern dag. Þar er dagurinn 1. ágúst skráður en enginn tímafjöldi. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafði yfirumsjón og stjórnstöðvarbíll með mönnum var sendur frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í Reykjavík. Stjórnendur sögðu aðstoð þyrla landhelgisgæslunnar hafa verið ómetanlega og TETRA-fjarskiptakerfið hefði reynst vel, meðal annars til að ferilvakta björgunarmenn bæði úr færanlegu stjórnstöðinni og úr Skógarhlíð. Þjóðverjarnir eru taldir látnir og leit er hætt.

Um hádegisbil fór rúta með 31 um borð, erlenda starfsmenn Arnarfells, út af veginum í Bessastaðabrekku í Fljótsdal. Þegar tilkynnt var um slysið hófst viðamikil björgunaraðgerð undir yfirstjórn stöðvarinnar við Skógarhlíð, sem nú var mönnuð fulltrúum heilbrigðiskerfisins, enda reyndi mjög á það í öllum viðbrögðum við greiningu og móttöku á 15 slösuðum farþegum, sem fluttir voru undir læknishendur til Egilsstaða, Neskaupstaðar, Reykjavíkur og Akureyrar, en tvær þyrlur landhelgisgæslunnar, Eir og Gná, komu þar við sögu auk fokkersins, Syn og flugvéla frá Akureyri og Flugfélagi Íslands í Reykjavík. Þá var opnuð fjöldahjálparstöð á vegum Rauða krossins á Egilsstöðum með sérstöku símanúmeri fyrir aðstandendur erlendis.

Skömmu áður en björgunaraðgerðir vegna rútuslyssins hófust hafði borist tilkynning um að erlendrar konu væri saknað í Kverkfjöllum. Voru björgunarsveitir kallaðar á vettvang með leitarhundum. Var ákveðið, að þyrlur landhelgisgæslunnar sneru til leitar að konunni, eftir að hafa lokið hlutverki sínu á Fljótsdal. Í þann mund, sem þær komu á vettvang, eða rúmlega 16.00 hafði skálavörður í Sigurðarskála fundið konuna heila á húfi.

Það var því mikið um að vera hjá björgunarmönnum, lögreglu, landhelgisgæslu og heilbrigðisstarfsfólki í dag og enn sannaðist, hve skjótt og vel tugir ef ekki hundruð manna bregðast við með skömmum fyrirvara og leggja mikið á sig til hjálpar öðrum.

Auk þess sem að ofan er getið kviknaði eldur að meðferðarheimilinu Stuðlum og björguðu reykkafarar þar tveimur stúlkum. Þá varð mannmargur árekstur í Hvalfjarðargöngum.