16.8.2007 8:38

Fimmtudagur, 16. 08. 07.

Að óreyndu mætti ætla, að hagfræðiprófessor með fastan dálk í dagblaði, teldi sér um þessar mundir bera að upplýsa lesendur sína um þróun alþjóðlegra fjármála og áhrif hennar í eigin landi. Þetta á þó ekki við um prófessor Þorvald Gylfason, dálkahöfund Fréttablaðsins. Í dag og fyrir viku ræðir hann í dálki sínum leiðir til að draga úr næturómenningu í Reykjavík um helgar. Hann telur það helst til framfara í því efni, að ég hætti sem dómsmálaráðherra og segir meðal annars í grein sinni í dag:

„Ég hef spurt þingmenn um málið. Þeir segja mér, að það taki því ekki að flytja vantraust á dómsmálaráðherrann, því það sé löngu ákveðið, að hann verði innan tíðar gerður að sendiherra. Þannig sæta menn ábyrgð á Íslandi.“

Fróðlegt væri, að Þorvaldur upplýsti við hvaða þingmenn hann hefur rætt í því skyni að fá þá til að flytja tillögu um vantraust á mig. Ég tala nú ekki um, ef þeir hafa ákveðið, að ég verði sendiherra. Af minni hálfu standa slík vistaskipti alls ekki fyrir dyrum - snúi ég mér að öðru eftir næstu kosningar, kynni það til dæmis að vera kennsla í háskóla.

Á sínum tíma skýrði Þorvaldur frá því í dálki sínum, að hann byggi yfir mikilvægri vitneskju um Baugsmálið eftir samtal við sessunaut sinn í millilandaflugvél. Hann sagðist þó sem blaðamaður (svo!) ekki geta sagt, hver heimildarmaður sinn væri. Það er því borin von, að Þorvaldur skýri frá því, hvaða þingmenn eru að dæla í hann röngum upplýsingum um framtíð mína.

Fyrir kosningar hvatti Jóhannes Jónsson kaupmaður kjósendur til að halda mér utan alþingis vegna verks, sem ég hafði ekki unnið. Nú segir Þorvaldur Gylfason ekki verða flutt vantraust á mig að sinni ósk vegna starfs, sem ég tek ekki að mér.

Ætli prófessorinn trúi því virkilega, að þetta framlag hans til umræðna um lögreglumál, bæti ástandið í miðborg Reykjavíkur?

Fór klukkan 10.00 um borð í skipið Logos II í Reykjavíkurhöfn, en það er hingað komið með bókamarkað og til að boða kristna trú.