14.8.2007 21:12

Þriðjudagur, 14. 08. 07.

Viðbrögð við grein Stefán Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, bera með sér, að erfitt geti verið að finna leiðina til að hreinsa ómenningarsvip af helgarnóttum í miðborginni. Þau rök heyrast fyrir óbreyttu ástandi, að yfir miðborgarlífinu sé svo skemmtilegur blær eða ástandið höfði sérstaklega til ferðamanna - borgin hafi verið markaðssett undir þessu flaggi. Skyldu margir hætta við að heimsækja Reykjavík, ef stuðlað yrði að meira öryggi og hreinlæti í miðborginni? Yrði borgarbragurinn fyrir miklum hnekki, ef umgengni batnaði?

Stefán Pálsson, talsmaður hernaðarandstæðinga, saknaði helst lögreglunnar, þegar hann og nokkrir félagar hans þrömmuðu milli sendiráða í dag til að mótmæla æfingunni Norðurvíkingur. Ætli þeir hafi þráð að lenda í útistöðum við einhvern í nafni friðar?

Í Kastljósinu var látíð í það skína, að sekt fyrir akstur á 140 km hraða væri eitthvað sérstök, vegna þess að Blönduóslögreglan ætti í hlut. Brot af þessu tagi leiðir til hárrar sektar og annarra lögboðinna afleiðinga. Blönduóslögreglan fór einfaldlega að lögum í þessu máli eins og embættismenn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem að því komu. Er það kannski til marks um efnisþurrð, að rætt sé sérstaklega, þegar lögregla og embættismenn fara að lögum?