4.8.2007 17:57

Laugardagur, 04. 08. 07.

Mikið fjölmenni var á kristilega Kotmótinu í Fljótshlíðinni, þegar við litum inn á það í dag. Það komu einnig margir á flóamarkaðinn, sem Rut efndi til hér í hlíðinni. Veðrið var sólbjart og hlýtt en nokkur norðanvindur og niður við ströndina eru sandstrókar, sem spilla útsýn til Eyja.

Fyrir ári fórum við til Bayreuth og sáum frumsýningu á nýrri uppfærslu á Niflungahringnum eftir Richard Wagner. Bayreuth-hátíðin í ár hófst á nýrri uppfærslu á Meistarasöngvurunum frá Nurnberg. Katharina Wagner, 29 ára barnabarnabarn Wagners (1813-1883), er ábyrg fyrir uppfærslunni, sem hefur fengið dræmar undirtektir eins og sjá má hér á vefsíðu Bloomberg. Kona hefur ekki sett upp verk á hátíðinni síðan Cosima, ekkja Richards Wagners, gerði það á sínum tíma.

Síðar á árinu á að taka ákvörðun um, hver tekur við stjórn Bayreuth-hátíðarinnar af Wolfgang Wagner, föður Katharinu. Wolfgang vill. að Katharina taki við af sér. Uppfærsla hennar á Meistarasöngvurunum þykir ekki hafa styrkt stöðu hennar í keppni við hálfsystur sína og frænku, Þessar þrjár konur eru helst taldar koma til álita, ef stjórn hátiðarinnar verður áfram í höndum fjölskyldunnar.