23.7.2007 9:12

Mánudagur, 23. 07. 07.

Í Le Figaro í dag (lefigaro.fr) er skýrt frá því að Brigitte Gemme, þá 17 ára í Québéc, hafi verið fyrst allra til að opna vefsíðu (nú bloggsíðu) á frönsku hinn 7. júní 1995. Síðan hét Montréal, Soleil et Pluie - Montreal, sól og regn, en henni var lokað 12. mars 2003. Ég held þessu til haga sem hluta af sögu netheima. Mín síða hóf formlega göngu sína í febrúar 1995 en henni hefur ekki verið lokað.

Forystumenn í frönskum stjórnmálum halda úti bloggsíðum og er Alain Juppé, borgarstjóri í Bordeaux, í þeirra hópi. Hann hvarf úr frönsku ríkisstjórninni eftir stutta setu að loknum þingkosningunum 17. júní sl., en hann náði ekki kjöri á þing. Spurt var, hvort hann mundi einnig segja af sér sem borgarstjóri. Hann svaraði þeirri spurningu neitandi á vefsíðu sinni 20. júní.