21.7.2007 22:38

Laugardagur, 21. 07. 07.

Einn þeirra, sem oft er á síðum blaðanna, er Davíð Þór Jónsson en síðasta vetur vann hann sér það helst til frægðar að semja spurningar og dæma svör í sjónvarpsþættinum vinsæla Gettu betur. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því, að Davíð Þór verði ekki við þetta starf næsta vetur heldur ætli hann að halda áfram námi sínu í guðfræði. Blaðamaðurinn hefur líklega ætlað að setja sig í kristilegar stellingar, þegar hann skrifaði fréttina um vistaskiptin en hún hefst á þessum orðum: „Davíð Þór Jónsson hefur ákveðið að venda kvæði sín í kross.“ (Feitletrun mín.) Hvernig ætli Davíð Þór hefði dæmt, ef málfarsspurningu hefði verið svarað á þennan veg?