19.7.2007 21:50

Fimmtudagur, 19. 07. 07.

Nú hefur verið opnaður kínverskur matstaður í gjörbreyttu Nausti, þar sem allt er miklu bjartara en áður. Var einstaklega vel tekið á móti gestum, þegar hinn nýi staður var kynntur í dag.

Sumarsýning Listasafns Íslands Ó-NÁTTÚRA! var opnuð í kvöld að viðstöddu fjölmenni.  Á sýningunni eru um 80 myndlistarverk eftir 51 myndlistarmann. Var gaman að kynnast þessum fjölbreyttu verkum undir þessum formerkjum. Í kynningu á sýningunni segir meðal annars: 

„Sýningin fjallar um náttúruna í ólíkum myndum. Ýmis merkingartengsl skapast á milli verkanna á sýningunni sem vekja upp áleitnar spurningar. Þannig má skoða verk sem fjalla um inngrip vísindanna og líftæknina eða ógnir stríðs og mannvonsku. Einnig eru verk á sýningunni sem sýna upphafna náttúru eins og hún birtist í hugskotum margra og náttúruna sem ráðandi afl með sína óbeisluðu krafta.“

Í Listasafni Íslands hitti ég Björn Jónasson, eiganda útgáfunnar Guðrúnar, sem hefur meðal annars gefið út Snorra-Eddu með tveimur myndum eftir Anslem Kiefer. Ég sagði frá mikilli sýningu á verkum eftir Kiefer og bókinni hér á síðunni 16. júní sl. Ég spurði Björn, hvernig hann hefði fengið Kiefer til að gera myndir fyrir bókina. Björn sagðist einfaldlega hafa haft upp á símanúmeri hans og hringt í hann til Ástralíu - Kiefer hefði ekki talið neitt sjálfsagðara en að taka þátt í verkinu, hann dáðist af Snorra og þekkti verk hans.

Nokkur hiti virðist hafa hlaupið í menn vegna framtíðar Valhallar á Þingvöllum. Málið er ekki svo einfalt, að Þingvallanefnd ákveði, hvort Valhöll standi eða ekki. Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði nefnd undir formennsku Þorsteins Gunnarssonar, formanns húsafriðunarnefndar og arkitekts, til að fjalla um framtíð Valhallar - Þingvallanefnd er samráðsaðili nefndarinnar. Ákvarðanir um framtíð Valhallar verða teknar í forsætisráðuneytinu. Deilur Þingvallanefndarmanna um Valhöll endurspegla aðeins ólík sjónarmið í málinu en segja ekkert um hlut nefndarinnar að því.