18.7.2007 21:27

Miðvikudagur, 18. 07. 07.

Framkvæmdir eru nú hafnar milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar í þágu Háskólans í Reykjavík. Ég sé ekki betur en unnið sé að því að færa göngustíginn vestan Öskjuhlíðar nær hlíðinni, svo að hin mikla háskólabygging hafi nægilegt rými. Teikningar af skólanum sýna engin bílastæði en einhver sagði, að skólastarfið kallaði á stæði fyrir 2000 jeppa!

Eins og lesendur síðu minnar vita taldi ég eðlilegt, að mannvirkjagerð á þessum viðkvæma stað færi í umhverfismat en það vildi R-listinn alls ekki. Dagur B. Eggertsson, núverandi leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, réðist að mér vegna þessarar skoðunar og ég lenti í smá-ritdeilu í Morgunblaðinu við Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstri/grænna, um málið. Hún taldi með öllu óþarft, að þarna yrði lagt mat á umhverfið og röskun þess.

Á dögunum hrópaði Dagur B. Eggertsson á umhverfismat vegna áforma um framkvæmdir í Örfirisey, ekki mæli ég gegn slíku mati, ef þar á ráðast í framkvæmdir, sem ganga nærri umhverfinu. Þegar ég heyrði þetta ákall Dags í þágu náttúrunnar þarna, undraðist ég, hvers vegna enginn spurði hann, hver væri munurinn á nauðsyn umhverfismats í Örfirisey, sem er að mestu manngerð, og að þess væri ekki þörf við rætur Öskjuhlíðar.

ps. Glöggur lesandi, sem hefur vitneskju um bílastæðaáform HR í Vatnsmýrinni ritaði mér og sagði: „Þú talar um að einhver hafi sagt þér að skólastarf HR kalli á stæði fyrir 2.000 jeppa...Ég vildi leiðrétta þetta, því ekki gott ef þú ert að fara þarna með ranga tölu. Það er gert ráð fyrir því að þarna verði um 1.000 bílastæði fyrir venjulegar bifreiðar (lang fæstir nemenda eða um 5-10% eru á jeppum) og meðan flugvöllurinn er þarna, sem væntanlega verður næstu 15-20 árin a.m.k. að mínu mati, þá verða þau að mestu við enda austur vestur brautarinnar. Síðan er gert ráð fyrir gjaldskyldu og bílastæðahúsi að hluta til neðanjarðar í framtíðinni. Það verður lagður mikill metnaður í gerð þessara stæða af hálfu Reykjavíkurborgar...“