17.7.2007 21:10

Þriðjudagur, 17. 07. 07.

Á mbl.is má í dag lesa frásögn af viðtali þýska blaðsins Die Welt við Olli Rehn, sem fer með stækkun Evrópusambandsins (ESB) í framkvæmdastjórn þess. Þar kemur hið sama fram og í skýrslu Evrópunefndar, en nefndarmenn hittu Rehn í lok maí 2005, að Íslendingum yrði fagnað, sæktu þeir um aðild að ESB og ekki tæki langan tíma að mati Rehn að semja um aðild Íslands að ESB. Raunar kom þetta sama viðhorf fram hjá Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í viðtali við National Interest í Bandaríkjunum og ég sagði frá í Morgunblaðinu og hér á síðunni.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag, að það sé ekki sinn draumur fyrir Íslendinga, að þeir gangi í ESB. Hann furðar sig að umræðum um upptöku evru, það gerist ekki nema með inngöngu í ESB. Með þessum orðum svarar hann vangaveltum Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, í viðtali við Viðskiptablaðið, þar sem hún taldi það einna helst stranda á Sjálfstæðisflokknum, að hér yrði tekin upp evra. Valgerður ætti að líta sér nær í því efni.

Mér hefur stundum dottið í hug, að frekar ætti að nota orðið barrtrjáatíð en gúrkutíð um efnistök fjölmiðlamanna í fréttaleysi. Þeir geta alltaf tekið til við að ræða grisjun barrtrjáa á Þingvöllum, ef annað þrýtur. Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, ritaði innblásinn leiðara um málið mánudaginn 16. júlí undir fyrirsögninni: Flórufasismi.

Ættjarðarástin drýpur þar af hverju orði og kýs Þorsteinn að gera UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, að sérstökum blóraböggli í málinu og telur okkur Íslendinga hafa sætt afarkostum af hálfu UNESCO, þegar Þingvellir voru skráðir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004. Barrtré séu höggvin á Þingvöllum segir Þorsteinn „í skiptum fyrir stimpil frá Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Sá stimpill gerir ekki meira úr Þingvöllum en þeir eru. Það má nota hann til þess að græða nokkrar krónur á ferðamönnum.“

Í dag er sagt frá því í fyrirsögn í Fréttablaðinu, að UNESCO geri enga kröfu um þessa grisjun og hana megi rekja til áætlunar, sem gerð var árið 2001. Að Þingvellir séu á heimsminjaskránni fyrir 30 silfurpeninga er fráleitt. Þorsteinn spyr í lok leiðara síns, hver sé vernd alþingis í þágu Þingvalla. Árið 2004 tóku ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum gildi eftir ítarlegar umræður á alþingi, lög, sem styrkja réttarstöðu þjóðgarðsins um leið og að stækka hann.