16.7.2007 22:57

Mánudagur, 16. 07. 07.

Klukkan var rúmlega 19.00, þegar Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands (LHG), hringdi til mín og tilkynnti mér, að TF-Sif, Dauphin þyrla LHG, hefði farið í sjóinn við æfingar með björgunarbáti frá Hafnarfirði rétt fyrir utan Straumsvík. Mannbjörg hefði orðið.

Skömmu síðar sótti Georg mig og flugum við með TF-Líf yfir slysstaðinn og var dapurlegt að sjá aðeins ofan á flotholtin á TF-Sif en þyrlan snerist á hvolf skömmu, eftir að hún lenti á sjónum. Kyrrt var í sjóinn, logn og heiðskírt og flugum við nokkra hringi yfir slysstaðinn, fengum góðar fréttir af líðan áhafnar og héldum aftir til Reykjavíkur.

Eftir nokkra viðdvöl á Reykjavíkurflugvelli héldum við í átt til Straumsvíkur og fórum fyrst inn á byggingarsvæði rétt norðan við álverið en þar voru fréttamenn, sem vildu ná sambandi við okkur. Stöð 2 var fyrst til að biðja um viðtal og veitti ég henni það, áður en við fórum í Straumsvíkurhöfn, en þangað kom áhöfn þyrlunnar með gúmbáti. Þar voru einnig fulltrúar rannsóknanefndar flugslysa, sem ræddu við áhöfnina.

Síðan ókum við Georg út fyrir hið lokaða hafnarsvæði og hittum þar fjölmiðlamenn og þar gafst þeim einnig tækifæri til að taka myndir af áhöfninni.

Fréttastofa sjónvarpsins bað okkur að bíða fram yfir klukkan 22.00, svo að hún geti sent samtal við okkur í beinni útsendingu og að því loknu sneri ég aftur heim.

Áhöfn TF-Sifjar sýndi mikið æðruleysi við þessar aðstæður og brást við á réttan hátt. TF-Sif hefur þjónað LHG með ágætum í 22 ár. Strax og ljóst var, að þyrlunni yrði líklega ekki flogið framar, hófu starfsmenn LHG að kanna, hvernig unnt yrði að fylla skarð hennar.