14.7.2007 22:54

Laugardagur, 14. 07. 07.

Jón Kaldal skrifar um eftirlitsmyndavélar í leiðara í Fréttablaðið í dag og segir meðal annars:

„Tæknin er að mörgu leyti komin langt fram úr lögunum. Nútímamaðurinn skilur á hverjum degi eftir sig fjölmörg spor um hvað hann aðhefst. Hægt er að kortleggja nákvæmlega ferðir hans út frá gsm símanum sem hann er í vasanum og skoða hvað vörur og þjónustu hann kaupir út frá kreditkortinu. Ef fólki er mjög umhugað um einkalíf sitt hefur það hins vegar val um að nota hvorki gsm síma og né kreditkort. Fólk hefur ekki slíkt val gagnvart eftirlitsmyndavélunum. Þær festa alla í minni sitt. Í linsum þeirra liggja allir undir grun.“

Þessar athugasemdir Jóns Kaldals rista grunnt, þegar hugað er að öllum upplýsingunum, sem unnt er að finna um hann og aðra með því að slá leitarorði inn á Google eða aðrar öflugar leitarsíður.

Í ræðu í hófi Persónuverndar á dögunum vitnaði ég í Thomas L. Friedman, dálkahöfund The New York Times. Hann telur okkur í raun hvergi óhult, ekki vegna eftirlitsmyndavéla, gsm-síma eða kreditkorta, heldur vegna bloggsíðna, myndavélasíma eða YouTube síðna - þess vegna ættum við að alltaf að haga okkur óaðfinnanlega, svo að ekki sé veist að okkur í netheimum.

Um eftirlitsmyndavélar og meðferð á efni úr þeim gilda ákveðnar reglur og sé brotið gegn þeim er efnið gagnslaust. Engar slíkar reglur gilda hins vegar um efni, sem leitarvélar í netheimum finna, og æ fleiri nota til að átta sig á einstaklingum, skoðunum þeirra og skapgerð. Huglausir nafnleysingjar nota gjarnan netið til að veitast að einstaklingum eða rægja þá. Almennt séð er líklegra, að slíkur „prófíll“ skipti einstakling meiru en sá, sem festist í eftirlitsmyndavél - efni hennar er eytt eftir ákveðinn tíma en hinu er kannski aldrei unnt að halda utan ósýnilegra þreifianga leitarvélanna.