13.7.2007 22:20

Föstudagur, 13. 07. 07.

Conrad Black, blaðakóngur með meiru, var í dag fundinn sekur af kviðdómi í Chicago. Hann sætti ásamt þremur öðrum 42 liða ákæru fyrir að hafa misfarið með fé í almenningshlutafélaginu Hollinger. Hann var sakfelldur fyrir þrenn fjársvik og fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir framgang réttvísinnar. Black var sýknaður af níu ákæruliðum. Eftir að kviðdómurinn hafði komist að niðurstöðu sinni, sagði blaðamaður The Daily Telegraph, sem eitt var í eigu Blacks, að sakfelling vegna eins liðar í ákærunni dygði til að hann missti traust og trúnað í viðskiptalífinu. Hinir þrír meðákærðu voru fundnir sekir um þrenn fjársvik.

Í The Daily Telegraph er haft eftir Jacob Zamansky, sem er fyrrverandi saksóknari í Bandaríkjunum, að dómarar sýni svindlurum af sauðahúsi Blacks, sem hafi brugðist miklum trúnaði og dregið sér mikið fé, litla miskunn. Taldi hann, að dómarinn í máli Blacks mundi taka mið af þeirri refsingu, sem Richard Skilling, fyrrverandi forstjóri Enrons, og Bernie Ebbers, forstjóri WorldCom, fengu en báðir voru dæmdir í meira en 20 ára fangelsi.

Í Bandaríkjunum eru mál sem þessi talin prófsteinn á það, hvort réttvísin hafi burði til að taka á stórum og flóknum svikamálum, þar sem miklum fjármunum er beitt til varnar hinum ákærðu. Vitnaleiðslur í máli Blacks stóðu í um 15 vikur. Kviðdómurinn settist á rökstóla hinn 27. júní og þurfti oftar en einu sinni að leita liðsinnis dómara til að komast að niðurstöðu sinni vegna ágreinings meðal kviðdómenda.