28.6.2007 17:05

Fimmtudagur 28. 06. 07.

Ókum í sólarblíðu upp í Reykholt í Borgarfirði, þar sem í kvöld hefst fundur norrænna ráðherra útlendingamála. Þetta er í fyrsta sinn, sem slíkur fundur er haldinn hér á landi.

Aðstaðan í Reykholti er til mikillar fyrirmyndar og til dæmis auðvelt að tengjast þráðlausu neti á staðnum, eins og þessi færsla sýnir. Ég hlakka til að hlusta á séra Geir Waage kynna gestunum staðinn og sögu hans. Snorri Sturluson er stórmenni í augum menntaðra manna um heim allan, en þó sérstaklega Norðmanna. Þeir hafa einnig lagt góðan skerf af mörkum til endurreisnar Reykholts.

Eitt fyrsta embættisverk mitt sem menntamálaráðherra fyrir rúmum tólf árum var að fara hingað í Reykholt til að kynna mér af eigin raun framhaldsskólastarf hér. Síðan var tekin ákvörðun um að loka skólanum og stefna að því, að í Reykholti yrði kirkju- og menntasetur tengt minningu Snorra. Það hefur gengið eftir og dafnar fræðimennska vel undir merkjum Snorrastofu og kirkjan hjá séra Geir.

Fyrir nokkrum mánuðum hitti ég Norðmenn, sem komu hingað til lands, í því skyni að halda fram hlut Gulaþings og stofna til samstarfs við Þingvallanefnd vörsluaðila hins forna þingstaðar á Þingvöllum. Þeir höfðu farið í Reykholt og hlýtt á séra Geir. Mátti helst ætla, að þá fyrst hefðu þeir áttað sig grundvelli norskrar sögu.